Er stúdentspróf í dönsku ónýtt?

Grein Péturs Rasmussen, kennara við MS, birt í Fréttablaðinu 16. janúar 2013 hefur vekið athygli. Greinum í Fréttablaðinu eru skorður settar hvað orðafjölda varðar. Hér birtist grein Péturs óstytt:

Upp á síðkastið hafa komið upp mál þar sem danskir háskólar hafa neitað íslenskum námsmönnum um aðgang að námsbrautum sínum með tilvísun til þess að þeir hafi ekki nógu góðar forsendur í dönsku. Mest ber á þessu hjá Verslunarháskóla Kaupmannahafnar, CBS. Þar nefna menn kröfu um 12 framhaldsskólaeiningar í dönsku til stúdentsprófs.

Síðan árið 2000 hefur danska til stúdentsprófs verið 6 einingar á öðrum brautum en málabraut en þar er krafan 9 einingar. Þegar ný námskrá fyrir framhaldsskóla tekur gildi eftir tvö ár, verður að líkindum aðeins krafa um 3 einingar. Hér ber sem sé töluvert mikið í milli.

Krafa danskra háskóla er skiljanleg. Hjá þeim miðast fjárveitingar við fjölda nema sem standast próf. Þeir fá hreinlega engar fjárveitingar til kennslu nemenda sem falla. Ef þá grunar t.d. að Íslendingar í námi hjá þeim falli frekar en Danir og að ástæðan sé ónóg hæfni í dönsku, er eðlilegt að þeir geri kröfu um stöðupróf. Meira að segja er slíkt stöðupróf til fyrir aðra útlendinga sem sækja um aðgang að námi. Það heitir Studieprøven og má t.d. lesa um það hjá Studieskolen í Kaupmannahöfn. Íslenskir umsækjendur um háskólanám í Danmörku geta þess vegna innritað sig í prófið og tekið það ef efaster um málhæfni þeirra.

Nú er ekki aðeins kennd danska í framhaldsskóla á Íslandi heldur líka í grunnskóla. Eru menn hjá CBS ekki bara ófróðir um dönskukennslu á Íslandi? Í grunnskóla er kennd danska í fjögur ár, samtals 14 tímar á viku, en 14 tímar á viku í framhaldsskóla er sama sem 14 einingar! Jafnvel þó að gert sé ráð fyrir að yngri nemendur læri minna í tímum en þeir eldri, væri ekki óeðlilegt að reikna samanlagðan kennslustundafjölda í grunnskóla og framhaldsskóla (6 einingar) sem ígildi 12 eininga nám. CBS á sem sé bara að hætta þessu einelti, eða hvað?

Djarft markmið

Þegar nánar er að gáð, dettur hvorki Dönum né Íslendingum í hug að miða tungumálahæfni við kennslustundafjölda. Sameiginlegt viðmið Evrópulanda hefur um nokkurt skeið verið svokallaður sjálfsmatsrammi í Evrópskri tungmálamöppu Evrópuráðsins fyrir framhaldsskólastígið. Þar er málhæfni sundurliðuð í fimm hæfnissvið og fyrir hvert eru tilgreind 6 þrep, A1-2, B1-2 og C1-2, þar sem C2 merkir hæfni næstum því eins og hjá innfæddum.

Studieprøven margumtalaða prófar miðað við hæfni C1, en hvaða kröfur eru gerðar til þess að standast stúdentspróf í dönsku? Í Aðalnámskrá framhaldsskóla 2011, kafla 10.5 er tekin skýrt fram sú krafa um dönsku „að hæfniþrepi þrjú“ sem á öðrum stað (í viðauka 3) útleggst sem B2 á Evrópuvísu. Það er nokkuð djarft markmið þegar haft er í huga að námskráin gerir ráð fyrir að nemendur hafi náð A2 að loknum grunnskóla — vel að merkja aðeins ef þeir hafa „framúrskarandi hæfni“, á mannamáli einkunn 8-10, upp úr grunnskóla (kafla 13.2).

Framhaldsskóli getur vissulega kennt slíkum afbragðsnemanda dönsku upp í B2 og útskrifað hann með einkunn 8-10. Hinir ná því ekki. Ef vel lætur, hafa þeir hæfni upp á A1 eða lakara við inntöku í framhaldsskóla og útskrifast með einkunn 6-7 á B1 eða 4-5 á A2.

Ónýtur miði

Í öllum tilvikum vantar nokkuð upp á að íslenskur háskólanemi sem hefur ekki bætt við sig aukaáfanga í dönsku, uppfylli hæfniskröfur Studieprøven sem eru C1. CBS gerir sem sé rétt í að vísa Íslendingum á Studieprøven ef þeir vilja komast inn, og í raun má ekki mismuna Evrópubúa við inngöngu eins og hingað til hefur tíðkast.

Þá má auðvitað rökræða um það hvort krafan um C1 sé eðlileg. Persónulega hika ég ekki við að gefa nemendum með einkunn 8-10 og 9 framhaldsskólaeiningar að baki meðmæli til háskólanáms í Danmörku. Þar sem ég þekki til, hefur þeim gengið vel. Þúsundir Íslendinga hafa lokið háskólaprófi í Danmörku, flestir MA-prófi að loknu BA-prófi heima. Reynslan virðist vera sú að það hafi verið nokkuð þungt fyrstu 2-3 mánuði en þaðan af hafi allt verið í lagi. Ég veit ekki hvort þeir hafi fallið á fyrstu önn í ríkari mæli en Danir og reyndar hafa margir haft vit á að fara út áður en þeir hefja nám og hressa upp á málhæfnina. Þess vegna gæti hæfnisþrep B2 verið nægileg undirstaða. En það er ekki okkar að skipa útlenskum yfirvöldum fyrir. — Já, stúdentspróf í dönsku er ónýtur miði inn í danskt háskólanám.

Aðgangsprófið hér heima?

Annað má íhuga hér heima. Er eðlilegt að grunnskólanemar nái flestir bara hæfnisþrepi A1 eftir fjögurra ára nám í dönsku með 3-4 tíma á viku? Ég veit það ekki. Annað veit ég: Fyrir nokkrum árum, 2009, var hætt að hafa samræmt próf. Á sama tíma var hætt að gera kröfu um lágmarkseinkunn í dönsku til að komast inn á bóknámsbraut. Síðan höfum við framhaldsskólakennarar í dönsku til stúdentsprófs þurft að glíma við alveg ótrúlega mikla breidd í málhæfni nemenda, frá því að vera vel læsir og talandi til þess að vita ekki einu sinni merkingu orðsins „men“ á dönsku. Mér finnst að eitthvað hljóti að vera ábótavant í eftirlitinu með gæðum kennslu grunnskólanna. Það er allt að því afrek að læra jafn lítið á fjórum árum og sumir hafa gert. Þetta ástand auðveldur okkur ekki róðurinn við að koma mönnum upp í B2.

En hvað er þá til ráða? Hæfnisþrep B2 dugar ekki. Flestir ná meira að segja aðeins B1. Viljum við auðvelda íslenskum háskólanemum aðgang að dönskum háskólum, virðist aðeins vera til ein leið: að stofna málaskóla til undirbúnings Studieprøven í dönsku og semja við dönsk yfirvöld um að fá að halda þetta stöðupróf hér heima. Það ætti ekki að vera erfitt í framkvæmd, ekki síst með það í huga að nemendur beri að sjálfsögðu kostnaðinn, eins og þegar menn taka ökupróf.

Dette indlæg blev udgivet i Uncategorized. Bogmærk permalinket.