Afar fróðlegur vefur á ensku um Albani og búsetu þeirra víða um heim

☼albanian.com/main/☼
Á miðöldum tók ættbálkaleiðtoginn Leke Gukagjini upp Leke siðareglurnar svonefndu í Norður Albaníu. Þær stýrðu lífsháttum samfélagsins öldum saman með reglum um hollustu og hugmyndum um sæmd sem fólu í sér bæði hefndir og veglynda sakaruppgjöf. Þessar reglur setja mark sitt á hugsunarhátt Albana enn í dag.

1225 f. Kr.  Dauði Hyllusar, fyrsta þekkta konungs Illýríu
400-300 F. Kr. Bardhylus konungur sameinaði Illyríu, Molossíu og hluta Makedóníu. Hátindur konungdæmis Illýríu.
358 f. Kr.  Filippus II Makedóníukonungur leggur Illýríu undir sig.
312 f. Kr. Glauk konungur Illýríu rak Grikki út úr Durrës.
232 f. Kr. Dauði Agrons konungs. Teuta drottning tók við krúnu Illýríu.
165 f. Kr.  Rómverjar handtóku Gent Illýríukonung og sendu hann til Rómar. Illýría komst undir stjórn Rómverja.
0-100 e. Kr. Kristni kom til svæða þar sem Illýrar bjuggu.
9 e. Kr. Tíberíus keisari í Róm lagði Illýría undir sig og skipti svæðinu sem nú er Albanía á milli Dalmatíu, Epírus og Makedóníu.
9. apríl 193 e. Kr. Hinn virti hermaður Septimius Seversus var útnefndur keisari Balkanskagans af hernum í Illýríu.
300-700 e. Kr. Gotar, Húnar, Avarar, Serbar, Króatar og Búlgarar ráðast hver á eftir öðrum inn í lönd Illýría.
395 e. Kr.  Albönsk landsvæði komust undir stjórn Austrómverska keisaradæmisins.
700-800 e. Kr. Slafneskir ættbálkar setjast að á svæðum sem nú tilheyra Sloveníu, Bosníu, Króatíu, Svartfjallalandi og Serbíu og Illýríar á þessum svæðum samlöguðust þeim. Illýríar í suðri komust hjá samlögun.
732 e. Kr.  Austrómverski keisarinn Leó Ísauríski lagði Illýríu undir umdæmi patríarkans í Konstantínópel.
1054 e. Kr. Við endanlegan aðskilnað rómversku kirkjunnar og hinnar rétttrúuðu komust kristir menn í Suður Albaníu undir handleiðslu patríarkans í Konstantínópel en íbúar norðurhluta landsins lutu páfanum í Róm.
1081 e. Kr. Albanía og Albanir eru nefndir í fyrsta sinn í rituðum heimildum Gríska keisaradæmisins.
1100-1200 e. Kr. Serbar leggja undir sig hluta af albönskum svæðum í norðri og austri.
1204 e. Kr. Feneyingar náðu völdum yfir meirihluta Albaníu en Gríska keisaradæmið hélt yfirráðum yfir suðurhlutanum.
1272 e. Kr. Herir Napólíkonungs tóku Durrës og stofnuðu Arbëríu, fyrsta albanska konungdæmið frá því Illýría féll.
1385 e. Kr.  Albanski konungurinn í Durrës leitaði liðveislu ottómanskra herja gegn keppinaut sínum.
15. júní 1389.  Tyrkir brutu Serba á bak aftur í orustunni við Kosovo. Serbneski prinsinn Lazar var handtekinn og hálshöggvinn af Tyrkjum. Serbar kusu dauðann frekar en uppgjöf og þessi orusta á sér varanlegan sess í þjóðarvitund Serba. Beinum Lazars var komið fyrir í Gracanica munkaklaustrinu í Kosovo. Albanir voru með balkanska hernum undir stjórn Serba í þessari orustu.
1403  Gjergj Kastrioti fæddur. Hann varð leiðtogi Albana, þekktur undir nafninu Skanderbeg.
1443 Eftir tapaða orustu nærri Nis, hljópst Skanderbeg ásamt hópi albanskra bardagamanna á brott úr tyrkneska hernum og fór til Kruja. Þar skipulagði hann andspyrnu gegn yfirráðum Tyrkja. Hann hratt 13 árásum Tyrkja á árunum 1444-1466 og tókst að halda Albaníu sjálfstæðri í meira en 20 ár. Hann er þjóðhetja og dóttir Enver Hoxha skipulagði safn honum til heiðurs.
1468 Skanderbeg deyr og áratug síðar taka Tyrkir Kruja og Shkodra og innlima Albaníu í Tyrkjaveldi. Næstu aldirnar er landið sveipað hulu og flestir Albanir snerust til Islams. Sumir þeirra náðu frama í ríkisstjórn og her Tyrkjaveldis.
7. mars 1799 hertók Napoleon Jaffa í Palestínu og menn hans myrtu meira en 2.000 albanska fanga.
1822  myrtu tyrkneskir útsendarar albanska leiðtogann Ali Pasha frá Tepelena fyrir að tala fyrir sjálfstæði.
1830  Tyrkneskur herforingi boðaði 1000 albanska leiðtoga til fundar við sig og drap um helming þeirra.
1835  Tyrkir skiptu landsvæðum sem byggð voru Albönum í héruðin Janina, Manastir, Shkodra, og Kosova með tyrkneskum stjórnendum.
1861  Fyrsti skólinn þar sem albanska var töluð á síðari tímum var opnaður í Shkodra.
1877-78 Eftir stríð Rússa og Tyrkja var albönskum landsvæðum skipt milli nokkurra landa. Albanskir leiðtogar hittust í Prizren í Kosova, til að stofna Prizrenbandalagið sem hóf baráttu fyrir sjálfstæði Albaníu. Berlínarsáttmálinn skipti Balkanskaganum milli Evrópuríkja.
1881 Tyrkneskir herir brutu albanska andspyrnumenn á bak aftur við Prizren. Leiðtogar Prizrenbandalagsins voru handteknir og reknir úr landi með fjölskyldum sínum.
1897  Tyrknesk yfirvöld leystu upp endurreist Prizrenbandalag, tóku foringja þess af lífi og bönnuðu bækur á albönsku.
1908  Albanskir menntamenn hittust í Manastir (Bitolja, Macedonia) á Manastirþinginu til að samræma albanska stafrófið með latnesku letri í stað hins kyrillíska og arabíska sem hafði verið notað til þessa.
26 ágúst 1910  fæddist í Albaníu móðir Teresa sem stundaði líknarstörf í Kalkútta og hlaut friðarverðlaun Nóbels.
Maí 1912 Albanar hófu uppreisn gegn tyrkneskum yfirvöldum og hertóku Shkup (Skopje í Makedóníu).
18 október 1912  hófst fyrra Balkanstríðið milli bandalags Balkanríkja (Serbíu, Búlgaríu, Grikklands og Svartfjallalands) og Tyrkjaveldis sem var hrakið af skaganum. Barátta albanskra þjóðernissinna var mikilvæg í aðdraganda stríðsins. Serbar tvöfölduðu yfirráðasvæði sitt.
28. nóvember 1912  lýstu albanskir fulltrúar í Vlora yfir sjálfstæði Albaníu og settu á fót bráðabirgðastjórn.
Desember 1912  Ítalir sendu hersveitir til Albaníu til að verja hagsmuni sína og Evrópuþjóðir ræddu örlög Albaníu. Þau veittu Serbíu yfirráð yfir Kosovo frekar en hinu nýja lýðveldi Albaníu.
30. maí 1913  Fyrra Balkanstríðinu lauk með samningum í London og hið síðara hófst.
Nóvember 1913  Öðru Balkanstríðinu lauk með samningum í Búkarest. Evrópuveldin viðurkenna sjálfstætt ríki Albaníu. Litið var framhjá lýðfræðilegum staðreyndum og helmingi svæðanna sem byggð voru Albönum (til dæmis Kosovo og Chameriu) var skipt á milli Svartfjallalands, Serbíu og Grikklands.
6. mars 1914  var þýski prinsinn Wilhelm de Wied krýndur sem konungur Albaníu. Ríkistíma hans lauk áður en hálft ár var liðið þegar fyrri heimsstyrjöldin braust út.
1918 Þegar styrjöldinni lauk var meirihluti Albaníu hersetinn af Ítalíu og Serbar, Grikkir og Frakkar réðu afganginum. Átök hófust milli Ítalíu og Júgóslavneskra afla um yfirráð yfir Albönum. Kosovo varð hluti af hinni nýju Júgóslavíu.
1919 Serbar réðust á albanskar borgir og Albanir hófu skæruhernað gegn þeim. Bretar, Frakkar og Grikkir vildu skipta Albaníu milli Grikklands, Ítalíu og Júgóslavíu en Wilson Bandaríkjaforseti beitti neitunarvaldi.
1920   Albanskir leiðtogar höfnuðu skiptingu landsins, stofnuðu þing og stjórn landsins flutti til Tirana sem varð höfuðborg. Ítalskar hersveitir voru hraktar úr landinu og Albanía gekk í Þjóðabandalagið sem sjálfstætt ríki.
1921  Júgóslavneskar hersveitir réðust inn í Albaníu en Þjóðabandalagið þvingaði þær til að draga sig til baka. Alþýðuflokkurinn myndaði stjórn undir forustu Ahmet Zogu
1922  Patríarkinn í Konstantínópel viðurkenndi albönsku rétttrúnaðarkirkjuna
1923  Albanskir súnnamúslímar rufu tengsl sín við Konstantinópel og hétu hollustu við land sitt.
1924 Uppreisnarmenn náðu Tirana með stuðningi smábænda. Fan S. Noli varð forsætisráðherra en Zogu flúði til Júgóslavíu. Hann komst aftur til valda í árslok og Noli flúði til Ítalíu.
1928  Ahmed Zogu naut stuðnings Ítala og lýsti Albaníu konungsríki og sjálfan sig hans hátign Zog konung I. Zogu neyddi þingið til að leysa sjálft sig upp og gerði ráðstafanir til að sonur hans gæti tekið við völdum.
1931  Zog neitaði að endurnýja samninga við Ítali og þeir hófu pólitískar og efnahagslegar þvingunaraðgerðir.
1934 Eftir að Albanía undirritaði verslunarsamninga við Grikkland og Júgóslavíu hætti Ítalía efnahagsaðstoð og hafði í hótunum.
1935 Mussolini gaf Albönum 3.000.000 gullfranka og meiri efnahagsaðstoð fylgdi í kjölfarið.
7. apríl 1939  Ítalir réðust inn í Albaníu og lögðu landið undir sig, enda mættu þeir lítilli andspyrnu. Albanska þingið samþykkti að sameinast Ítalíu og Zog flúði til Grikklands.
1939-1943 Meðan öxulveldin réðu var Kosovohérað innlimað í Albaníu.
28. október 1940 Ítalir réðust á Grikkland um Albaníu.
1941 Þjóðverjar og Ítalir lögðu Grikkland og Júgóslavíu undir sig með aðstoð albanskra hersveita. Júgóslavneski kommúnistaleiðtoginn Josip Broz Tito stjórnaði skipulagningu albanskra kommúnista sem stofnuðu flokk sinn í nóvember. Enver Hoxha varð fyrsti aðalritarinn.
1942  Kommúnistaflokkurinn stofnaði þjóðfrelsishreyfingu og andkommúnískir þjóðernissinnar hófu andspyrnu gegn hernámi Ítala.
1943 Uppgjöf Ítala fyrir Bandamönnum veikti tök þeirra á Albaníu en þýskar hersveitir réðust þá inn í landið.
1944 Skæruliðar kommúnista náðu völdum í suðurhluta Albaníu með aðstoð Breta og tóku að skipuleggja ríkisstjórn undir forystu Enver Hoxha. Þjóðverjar hörfuðu úr Tirana í nóvember, kommúnistar náðu öllum völdum og ríkið tók yfir alla stjórn á verslun og viðskiptum. Þar með hófst 40 ára valdaferill harðrar stalínískrar stjórnar. Fyrst var náið samband við Sovétríkin og Kína en þau tengsl voru rofin af hugmyndafræðilegum ástæðum og Albanía varð pólitískt og félagslega eitt einangraðasta land heimsins.
1945  Albanska stjórnin samþykkti að Kosovo yrði sjálfstætt hérað í Júgóslavíu sem var undir stjórn Titos. Réttarhöld hófust yfir þúsundum „stríðsglæpamanna“ og „óvina fólksins“ og kommúnistastjórnin hóf að þjóðnýta iðnað, samgöngur, skóga og beitilönd. Kosningar voru haldnar til alþýðuþingsins og aðeins flokksmenn máttu taka þátt.
1946 Albanir gerðu vináttusamning við Júgóslava og ráðgjafar og hveiti flæddu inn í landið. Þingið lýsti Albaníu „alþýðulýðveldi“ og hreinsanir hófust í valdastöðum. Ný stjórnarskrá var samþykkt og Enver Hoxha varð forsætisráðherra, utanríkisráðherra og æðsti yfirmaður hersins.
1948 Kommúnistaflokkurinn samþykkti að blanda albönsku hagkerfi og her en árið eftir var fjöldi flokksmanna dæmdur fyrir að vera júgóslavneskir útsendarar. Þegar handtökum var haldið áfram flúðu margir land.
1950 Bretar og Bandaríkjamenn sendu skæruliða inn í Albaníu án árangurs.
1955  Albanía varð stofnaðili Varsjársamningsins um hernaðarbandalag átta kommúnistaríkja.
1960 Albanía tók afstöðu með Kína í hugmyndafræðilegum deilum við Sovétríkin. Efnahagsaðstoð Sovétríkjanna var skert og aðstoð Kínverja aukin.
1961 Enver Hoxha rauf öll tengsl við Nikita Kruschev, leiðtoga Sovétríkjanna, þegar hann hafnaði arfi Stalíns. Samskipti ríkjanna stirðnuðu og Sovétmenn hættu aðstoð. Um tíma voru Kínverjar bandamenn Albana. Zog konungur dó í útlegð í Frakklandi og Leka Zogu sonur hans var krýndur af útlagastjórninni.
1967  Ríkisstjórn Hoxha ofsækir trúflokka í landinu.
1968 Albanía dró sig úr Varsjárbandalaginu og fordæmdi innrás Sovétríkjanna í Tékkóslóvakíu.
1974 Kosovohérað í Júgóslavíu fékk aukna sjálfsstjórn, svipaða og önnur lýðveldi landsins.
1976 Ný stjórnarskrá var samþykkt og Albanía varð „sósíalískt alþýðulýðveldi.“
1978 Kína hætti öllum stuðningi við Albaníu eftir ágreining og landið var algerlega einangrað.
1981 Í Júgóslavíu bældu Serbar niður uppreins Albana í Kosovo og drápu 80 manns. Fjöldamótmæli hófust í Kosovo og krafist var að Kosovo yrði lýðveldi í Júgóslavíu. Styrkur júgóslavneskrar lögreglu og hers var aukinn í Kosovo.
1985  Stalíníski einræðisherrann Enver Hoxha dó. Við tók Ramiz Alia.
1987 Slobodan Milosevic, þjóðernissinni og leiðtogi Kommúnistaflokks Serbíu kom á hallarbyltingu og rak Ivan Stambolic forseta frá völdum vegna hófsamrar stefnu hans gagnvart albanska þjóðernisminnihlutanum.
1989 Alia gaf til kynna að róttækar breytingar væru nauðsynlegar á efnahagskerfi landsins. Stjórn Milosevic í Júgoslavíu gerði stjórnarskrárbreytingar til að styrkja völdin yfir héruðunum Kosovo og Vojvodina. 90% af 1.9 milljónum íbúa Kosovo voru Albanir en héraðið var svipt sjálfstjórn og sett undir stjórn Serba. Ekki var leitað samþykkis þings Kosovo. Fjöldi Albana var rekinn úr stjórnarstörfum og órói fylgdi í kjölfarið
1990 Eftir mikil mótmæli, aðallega ungs fólks, var farið að losa um stjórnartaumana í Albaníu og fleiri stjórnmálaflokkar voru leyfðir. Albanskir fulltrúar á þingi Kosovo lýstu yfir sjálfstæði héraðsins. Serbar lögðu niður þingið lokuðu eina dagblaðinu á albönsku og yfirtóku ríkisfjölmiðla.
1991 Stjórnarandstöðublöð voru leyfð og fyrstu fjölflokkakosningarnar haldnar í 50 ár. Verkamannaflokkurinn fékk 67% atkvæða en Lýðræðisflokkurinn um 30%. Alia var endurkjörinn forseti og lög sett til að auka mannréttindi. Mótmæli jukust og fólk flúði land þúsundum saman. Völd kommúnista hrundu og boðað var til kosninga árið eftir. Þjóðaratkvæðagreiðsla var haldin í Kosovo og yfir 90% kusu sjálfstæði.
1992  Fyrsta ungfrú Albanía var krýnd í janúar og Lýðræðisflokkur Sali Berisha vann 90 af 140 þingsætum í kosningum í mars. Efnahagur landsins hrundi, félagsleg óreiða ríkti og þörf var á erlendri matvælaaðstoð. Berisha var kosinn forseti. Alia, fyrrverandi forseti og fleiri kommúnistaleiðtogar voru handteknir og ákærðir fyrir spillingu og aðra glæpi, þeirra á meðal Nexhmije Hoxha, ekkja Enver Hoxha. Kosningar voru haldnar í Kosovo og Lýðræðisbandalagið náði meirihluta en stjórn Serbíu sagði kosningarnar ólöglegar.
1992-1999 Fimmtungur albönsku þjóðarinnar yfirgaf landið. Flestir fóru til Vesturlanda.
1994 Ramiz Alia vaf dæmdur í 9 ára fangelsi. Hann var náðaður og síðan handtekinn aftur vegna nýrra ákæra. Hann flúði land 1997.
1996 Stjórnarandstöðuflokkar ásökuðu stjórnarflokkinn um kosningasvik og hættu við þátttöku. Berisha forseti bannaði mótmælaaðgerðir stjórnarandstöðu. Bandaríkjastjórn studdi hann fyrir að letja albanska meirihlutann í Kosovo til að krefjast sjálfstæðis frá Júgóslavíu. Berisha forseti leyfði þeim einnig afnot af albönskum herflugvöllum. Evrópuþingið hvatti Albaníu til að endurtaka kosningar vegna misferlis. Fyrrum kommúnistar voru grunaðir um hryðjuverk. Lýðræðisflokkurinn lýsti yfir stórsigri í héraðskosningum.
1997 Efnahagslegt og pólitískt öngþveiti heldur áfram. Stjórnin reyndi að bæla niður óeirðir með valdi. Uppreisnir voru víða. Berisha forseti lagði til nýja ríkisstjórn þar sem allir pólitískir flokkar ættu fulltrúa og bauðst til að boða til nýrra kosninga. Óeirðir héldu áfram, Ítalía og Bandríkin fluttu fólk úr landi flugleiðis og Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna samþykkti að senda fjölþjóða herlið til að tryggja neyðarhjálp. Manntjón varð í óeirðum og hernaðaróhöppum og óeirðirnar snerust í vopnaða uppreisn. Ýmsir þóttust hafa sigrað í kosningunum. Sósíalistar mynduðu ríkisstjórn, bardagar voru víða og ítalskar og grískar friðargæslusveitir reyndu að stilla til friðar.
1998 Stríðsástand ríkir enn. Bardagar í Tirana. Hersveitir NATO hóta að brjóta Serba á bak aftur í Kosovo. Fatos Nano forsætisráðherra Albaníu lét af embætti og Pandeli Majko (31), aðalritari Sósíalistaflokksins varð forsætisráðherraefni flokksins. Stjórnarandstaðan krafðist bráðabirgðastjórnar og nýrra kosninga. Sósíalistastjórnin lýsti yfir sigri í þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrstu stjórnarskrá landsins eftir kommúnistastjórnina.
1999 Albanía og Makedónía biðja um aðstoð vegna þúsunda flóttamanna frá Kosovo eftir loftárásir NATO. Serbar reyndu að koma leiðtogum Albana fyrir kattarnef og Bandaríkin sökuðu Milosevic um „glæpi gegn mannkyni.“ Áfram stjórnarkreppa í Albaníu og ýmsir gera tilkall til valda. Nato gerir loftárásir á Belgrad og sendir hersveitir inn í Albaníu til að hjálpa flóttamönnum frá Kosovo. Tugir og hundruð þúsunda lögðu á flótta og urðu sumir fyrir barðinu á albönskum glæpamönnum sem einnig rændu erlenda blaðamenn.
2000 Sali Berisha forseti handtekinn um skamma hríð eftir óeirðir.
2001 Þingkosningar truflaðar með ofbeldi. Hinn ríkjandi sósíalistaflokkur lýsti yfir sigri.