Sagan í hnotskurn ☼Smellið hér☼
Staðsetning og heiti ☼myndir☼
Langt heiti: Ítalska lýðveldið
Stutt heiti: Ítalía

Ítalía er í Suður-Evrópu, staðsett að mestu á Appenínaskaga sem gengur til suðausturs út í Miðjarðarhaf. Skaginn minnir svolítið á stígvél í lögun. Í norðri nær landið allt til Alpafjalla. Það er 301.340 ferkílómetrar að stærð.
Ítalía á landamæri að Austurríki, Frakklandi, Slóveníu og Sviss en einnig eru tvö smáríki umlukin af Ítalíu, Vatikanið og San Marínó. Tvær stórar eyjar tilheyra Ítalíu, Sikiley og Sardinía.

Orðið Ítalía merkir „land kálfanna“.

Hvaðan koma börnin?
Victor kom frá ☼Róm☼

Landsveffang

Landsveffang: .it
Notendur internetsins eru 24,9 milljónir (árið 2008).

Höfuðborg ☼myndir☼

Höfuðborg Ítalíu heitir Róm. Þar búa yfir 2,7 milljónir manna.

Þjóðhátíðardagur og stjórnarfar
☼hlustaðu á þjóðsönginn☼
Þjóðsöngur Ítala heitir Il Canto degli Italiani. Ítalir þekkja hann best undir nafninu L’Inno di Mameli eða eftir upphafslínunum, Fratelli d’Italia (Bræður Ítalíu). Ljóðið samdi Goffredo Mameli og lagið er eftir
Hér er ☼lagið með söng og texta á youtube☼

Sendiráð /ræðismaður Ítalíu á Íslandi?
Ræðismaður á Íslandi: Hr. Pétur Björnsson 1991
Skrifstofa: Skúlagata 26, Reykjavík
P.O. Box 16, 121 Reykjavík
Sími: 562 4042
Fax: 562 4004
Netfang: consolato@simnet.is
Heimilisfang: Granaskjól 78, 107 Reykjavík
Sími: 551 0257

Næsta sendiráð Ítalíu er í Osló.

Fjöldi íbúa (haust 2010)

Á Ítalíu búa rúmar 58 milljónir manna.

Frjósemishlutfall: Hver kona eignast að meðaltali 1.31 barn.
Ungbarnadauði: 5.51 barn deyr af hverjum 1000 fæddum.
Lífslíkur við fæðingu: 80,2 ár (karlar: 77,26 ár, konur: 83,33 ár)
Aldursdreifing: 0-14 ára eru 13,5 %
15-64 ára eru 66,3 %
65 ára og eldri eru 20,2 %

Frjósemishlutfall á Ítalíu er með því lægsta í heiminum og er það áhyggjuefni því búist er við fólksfækkun í landinu á komandi áratugum.

Þjóðflokkar
Á Ítalíu búa Ítalir en í norðri er að finna litla hópa af þýskum-, frönskum- og slóvenskum Ítölum og í suðri eru albanskir Ítalir og grískir Ítalir.
Núna búa þar einnig yfir 4 milljónir innflytjenda sem er um 7,1 % af íbúafjölda. Áður voru flestir innflytjendur frá Norður-Afríku en síðustu ár hefur flutningur fólks frá Austur-Evrópu og Asíu til Ítalíu aukist. Flestir innflytjendur eru nú frá Rúmeníu eða um 800 þúsund. 10% þeirra eru sígaunar.

Trú
Rómversk kaþólskir eru 90% og hin 10% eru mótmælendur, gyðingar og múslimar meðal innflytjenda.

Vatikanið eða Páfagarð, höfuðstöðvar kaþólsku kirkjunnar, er að finna í Róm.

Tungumál ☼ítalska☼
Ítalska er opinbert tungumál og hana tala um 55 milljónir manna í landinu. Mállýskur geta verið ólíkar eftir svæðum. Einnig er á afmörkuðum stöðum töluð þýska, franska og slóvenska.

Ítalska er rómanskt tungumál.

☼Hér☼er hægt að hlusta á ýmsa frasa á ítölsku.

Siðir og venjur
Töluverður munur er enn á viðhorfum og lífsstíl Ítala eftir því hvort þeir eru að norðan eða sunnan, þó svo að sá munur hafi minnkað síðustu árin. Norðurhlutinn er iðnvæddari og þar leggja menn áherslu á stundvísi, áreiðanleika, gott skipulag, hagsýni og góðan efnahag. Tíminn er peningar. Sunnar eru menn afslappaðri, vinalegri og með hlýrra viðmót. Fjölskyldan er mikilvægari en velgengni í viðskiptum.

Ítalir kenna sig yfirleitt frekar við bæinn, borgina eða héraðið sem þeir koma frá heldur en að kalla sig Ítala. Flestir eru þeir félagslyndir og leggja mikla áherslu á að fá viðurkenningu meðal jafningja. Þeim er yfirleitt annt um heilsu sína, fjölskyldu og fjárhagslegt öryggi. Útlitið skiptir þá einnig máli og margir Ítalir eru meðvitaðir um tísku. Þeir vilja vera snyrtilegir og vel til hafðir, enda meta þeir oft hvorn annan út frá því hvernig þeir eru til fara. Þegar Ítalir standa í röðum, t.d. í búð, er mjög algengt að einhver fari fremst í röðina ef hann t.d. þekkir einhvern þar. Venjulega fer það ekki í taugarnar á hinum sem bíða í röðinni.

Ciao er hversdagsleg kveðja en buongiorno og buonasera þýðir góðan dag og gott kvöld. Karlar og konur heilsast með handabandi. Sé einhver með óhreinar hendur réttir hann í staðinn handlegg eða fingur og afsakar sig. Þegar karl og kona hittast í fyrsta sinn kinkar karlinn kolli og bíður eftir að konan rétti út handlegginn. Þegar vinir hittast faðmast þeir eða kyssast á báðar kinnar, fyrst þá hægri og svo vinstri (ja, eða láta kinnar snertast og kyssa út í loftið). Vinir af sama kyni krækja gjarnan handleggjunum saman á gangi.
Ítalir eru töluvert formlegir í fasi og það skal forðast í lengstu lög að móðga þá eða gera lítið úr þeim. Þegar maður ávarpar Ítala, sérstaklega ef hann er eldri, skal nota þérun (lei) og eftirnafn. Ekki skal nota þú (tu) og skírnarnafn fyrr en þér hefur verið boðið slíkt. Ungt fólk þérast þó ekki sín á milli. Venjan er að þéra starfsmenn verslana, þjóna, opinbera starfsmenn og þann sem maður er í viðskiptum við. Einnig skal ávarpa fólk með titlum, t.d. dottore (doktor), direttore (stjórnandi eða yfirmaður), professore (prófessor). Ef ekki er vitað um titil er hægt að nota signore (við karlmann) og signora (við konu).

Það er algengt að sjá Ítali tjá sig mikið með höndunum, sérstaklega eftir því sem sunnar dregur. Margir kannast við það að nudda þumlinum við fingurna sem tákn um peninga. Þegar einhver togar neðra augnlokið niður með fingrinum er hann að gefa til kynna snilli einhvers annars. Sumstaðar fyrir sunnan táknar það nei að kinka kollinum upp á við. Þetta eru aðeins fá dæmi um líkamstjáningu Ítala.
Þegar menn ganga inn í byggingu taka þeir af sér hattinn eða húfuna en það þykir dónalegt að fara út skónum fyrir framan aðra. Fólk hylur munninn þegar það geispar eða hnerrar.
Ítalir njóta þess að heimsækja hvorn annan, sérstaklega yfir hátíðar og á sunnudögum. Þegar menn eru boðnir í mat gefa þeir gestgjafanum gjarnan konfekt eða blóm (alltaf í oddatölu), stundum vín. Venjan er að gestir fái sér sæti og fái sér á diskinn sinn á eftir gestgjafanum. Þeir bíða svo eftir að gestgjafinn bjóði þeim að fá sér meira þegar þeir klára af disknum. Ef ekki er boðið upp á meiri mat, eða drykk, er það yfirleitt tákn um að tími sé kominn til að fara heim. Ef farið er í heimsókn fyrir kvöldmat er ætlast til þess að gesturinn snæði kvöldverð með heimilisfólki. Annað gæti talist ókurteisi, sérstaklega fyrir sunnan. Einnig er algengt að bjóða hver öðrum í heimsókn eftir kvöldmat, þá í eftirrétt eða drykk. Algengt er að Ítalir sendi þeim sem bauð í mat pakka eða litla orðsendingu daginn eftir til að þakka fyrir vel heppnaða máltíð.

Fjölskyldan er Ítölum afskaplega mikilvæg. Þeir telja sig skuldbundna fjölskyldunni og hún er helsta öryggisnet þeirra ef eitthvað alvarlegt kemur upp á. Foreldrum þykir yfirleitt ekki mikið tiltökumál að aðstoða fullorðin börn sín fjárhagslega ef þess þarf. T.d. kaupa margir Ítalir fyrsta heimilið handa börnum sínum. Stálpuð börn sem eru ekki komin með maka búa oft hjá foreldrum sínum jafnvel langt fram á fertugsaldur. Amma og afi aðstoða gjarnan við barnapössun. Fyrir norðan býr kjarnafjölskyldan saman, þ.e. móðir, faðir og 1-2 börn en fyrir sunnan tíðkast sumstaðar að nokkrar kynslóðir búi saman. Þar eru fjölskyldur oft stærri.
Ítalir vilja helst eiga sitt eigið hús en sökum efnahags búa margir í leiguíbúð allt sitt líf. Íbúðirnar eru oft með svölum þar sem hægt er að rækta blóm.
Konur gifta sig að meðaltali fyrir 26 ára aldur en karlmenn aðeins seinna eða um 29 ára. Þeir vilja nefnilega helst ekki giftast fyrr en þeir hafa lokið menntun og fundið sér vinnu. Þess vegna geta trúlofanir dregist á langinn. Flestir giftast að kaþólskum sið og ekki er hægt að fá skilnað fyrr en pör hafa verið skilin að borði og sæng í minnst þrjú ár. Þrátt fyrir það fer skilnuðum fjölgandi og giftingum fækkandi. Flestir Ítalir láta skíra börn sín. Áður fyrr var siður að gefa börnum nafn afa síns eða ömmu en það þykir ekki jafn sjálfsagt í dag.
Ítalir njóta frítíma síns vel. Þeir fara á ströndina, út í sveit, í bíó, út að dansa eða á íþróttaviðburði. Þeir fara gjarnan á barinn á daginn, en ítalskir barir líkjast frekar kaffihúsi, þar er huggulegt andrúmsloft og bæði boðið upp á kaffi og áfenga drykki.
Þó að ekki taki allir Ítalir siestuna alvarlega er ókurteisi að hringja heim til einhvers milli kl. 2 og 4 á daginn. Ef það er nauðsynlegt er best að afsaka ónæðið í byrjun símtals.

Fjölmiðlar
☼RAI☼ ríkissútvarpstöð landsins hóf útsendingar árið 1924.

☼Hér☼ er síða með tenglum á alla ítalskar útvarpsstöðvar sem hægt er að hlusta á á netinu.

Tónlist og kvikmyndir
Óperan, nótnaskrift og píanóið eru allt uppfinningar frá Ítalíu!
Á endurreisnartímanum varð Ítalía vagga klassískrar tónlistar og óperu. Mörg fræg ítölsk tónskáld hafa slegið tóninn fyrir önnur tónskáld í Evrópu á 19. öld, t.d. Monteverdi, Palestrina og Vivaldi. Af frægum óperuskáldum má nefna Gioacchino Rossini, Giuseppe Verdi, Giacomo Puccini, Gaetano Donizetti og Vincenzo Bellini.

Frá Ítalíu koma einnig ótalmargir afbragðsgóðir söngvarar. Margir kannast eflaust við Luciano Pavarotti, Andrea Bocelli, Eros Ramazzotti og Ceciliu Bartoli.

☼heimasíða hinnar frábæru söngkonu Ceciliu Bartoli☼ ☼og myndband þar sem Cecilia syngur aríu eftir Vivaldi☼
☼Tarantella☼ er þekktur alþýðudans, dansaður við tónlist með hröðum takti sem gjarnan er sleginn með tambúrínu. Þetta er paradans með léttum, hröðum skrefum og stríðnislegu daðri milli dansaranna. Hann á rætur sínar að rekja allt aftur til miðalda en nafnið er dregið af sjúkdómi sem fór að bera mikið á á Ítalíu frá 15. – 17 öld og menn tengdu ranglega við tarantúlubit. Sjúkdómurinn olli því að fólk haldið honum virtist fá óstöðvandi þörf til að hreyfa sig tryllingslega um og eina lækningin var talin vera að dansa við hraða tónlist. Tarantella tónlistin var því upprunalega samin í þeim tilgangi.

☼Hér má sjá dæmi☼ um tarantellu tónlist sem nefnist La Danza og er eftir Rossini.
☼Hér má hlusta á tónlistarmyndbönd☼ með ýmsum vinsælum tónlistarmönnum á Ítalíu, svo sem Lucio Battisti, Valerie Dore og Saba Anglana.
Líf barna ☼myndir☼
Á Ítalíu er litið á börnin sem framtíðina. Þess vegna er mikið lagt upp úr velferð þeirra og góðu uppeldi. Börnin eru foreldrunum gjöf og lífsfylling. Um 90% barna alast upp með báðum foreldrum sem er hærra hlutfall en víðast hvar í Evrópu. Að vísu hefur skilnuðum fjölgað upp á síðkastið og fjölskyldumynstrið er að breytast eftir að konur fóru út á vinnumarkaðinn, þær eignast færri börn en áður.
Börn á Ítalíu fá engu að síður mikinn stuðning frá fjölskyldu sinni og það er í lögum að báðir foreldrar fá forræði yfir börnum sínum við skilnað.

Unglingar fá bílpróf og verða sjálfráða 18 ára.

Bambini þýðir barn á ítölsku.

☼Hér er hægt að hlusta á ítölsk barnalög og vögguvísur☼

☼Hér er að finna ýmsar sögur á ítölsku fyrir börn☼
☼Hér er ítölsk myndaorðabók fyrir börn☼
friend
l’amico

Skólar
Læsi, miðað við íbúa 15 ára og eldri: 98,4 %
Ítölsk stjórnvöld leggja mikið upp úr menntun barna með það að markmiði að kenna þeim á ítalskt samfélag. Það er einnig mikill metnaður lagður í leikskólastarf og ýmsar leiðir farnar til að auðvelda þeim umskiptin úr leikskóla yfir í grunnskóla. Hér á Íslandi starfa margir leikskólar eftir stefnu sem rekja má til borgarinnar Reggio Emilia á Ítalíu.

☼Hér má lesa um Reggio Emilia á íslensku☼

Öll börn á aldrinum 6-16 ára ganga í skóla, það er skylda og ókeypis. Kennt er 6 daga vikunnar, það er bara frí á sunnudögum.

Það eru yfir 50 háskólar á Ítalíu. Einn af fyrstu háskólum í heimi var stofnaður á 12. öld í borginni Bologna.

Íþróttir
Vefsíða um ☼ítalska fótboltann☼
Ítalir hafa fjórum sinnum orðið heimsmeistarar í fótbolta, 1934, 1938, 1982 og 2006 enda er lið þeirra gríðarsterkt. Hver borg á einnig sitt heimalið.
Hjólreiðar, kappreiðar, körfubolti, skíðaíþróttir, tennis, hnefaleikar, sund og ýmsar vatnaíþróttir, frjálsar íþróttir og skylmingar eru einnig vinsælar íþróttagreinar. Árið 2006 voru vetrarólympíuleikarnir haldnir á Ítalíu.

Matargerð og matarvenjur
Uppskriftir frá Ítalíu á ☼íslensku☼ á ☼ensku☼

Ítalir viðhafa hefðbundna, vestræna borðsiði, með hnífinn í vinstri og gaffalinn í hægri. Það er dónaskapur að hafa hendurnar í kjöltu sér við matarborðið og það er til siðs að standa ekki upp frá borði fyrr en allir eru búnir. Flestar fjölskyldur reyna a.m.k. að borða saman kvöldverð, milli kl. 19 og 20 fyrir norðan en heldur seinna fyrir sunnan eða milli kl. 20:30 og 21:30. Ef gestir eru við borðhaldið er venjan að taka sér góðan tíma til að borða. Ítalir spjalla yfirleitt saman við matarborðið, t.d. um fótbolta, stjórnmál eða fjölskyldumál. Gestgjafanum líkar það vel þegar gestirnir hrósa matnum eða heimilinu.
Á veitingastöðum er þjónustugjald innifalið í reikningnum en þó er oft viðeigandi að skilja eftir smá þjórfé.

Ítalir leggja margir hverjir mikla ástríðu í matargerð sína. Höfuðáherslan er á ferskt og gott hráefni og þannig hafa ólíkar hefðir þróast milli héraða eftir því hvaða hráefni er hendi næst. Ítalskur matur er mikils metinn víða um heim fyrir ferskleika, einfaldleika og gott bragð. Frá Ítalíu kemur meðal annars pasta, pizzur, lasagne og risotto.

Tíska  Um ☼tískuhús og hönnuði☼ á Ítalíu
Flestir Ítalir eru mjög meðvitaðir um tísku og það skiptir þá máli að vera vel til hafðir. Það sést vel þegar gengið er um torg og stræti í ítölskum borgum að þeir kunna að klæða sig. Þeir velja sér fallegar, klassískar og ekta flíkur sem fara þeim vel frekar en að elta alltaf nýjustu tísku. Það kemur því ekki á óvart að frá Ítalíu koma margir af frægustu fatahönnuðum heims. Donatella Versace, Giorgio Armani, Guccio Gucci, Fendi, Roberto Cavalli og Elsa Schiaparelli eru aðeins örfá dæmi.

Flest tískuhúsin er að finna í borginni Mílanó sem er ein af fjórum helstu tískuborgum heims (ásamt London, París og New York). Þar er haldin tískuvika tvisvar á ári. ☼Hér má skoða myndir og fleira frá tískuvikunum árið 2010☼

Listir
Ítalía hefur öldum saman verið miðdepill listar í heiminum og þar hafa mótast margar liststefnur. Endurreisnin er sögð hafa byrjað á Ítalíu á 14. öld en þá fóru menn að líta til baka til menningar Forngrikkja og Rómverja og innleiddu betri aðferðir hvað varðaði hlutföll, sjónarhorn og lýsingu í málverk og aðrar listir. Ótalmargir miklir listamenn sögunnar (bæði málarar, myndhöggvarar og arkitektar) komu frá Ítalíu, t.d. Leonardo da Vinci, Raphael, Michelangelo, Donatello, Giotto, Titian, Bernini og Caravaggio.

Eins og gefur að skilja er heilmikið af söfnum á Ítalíu sem varðveita mörg af frægustu listaverkum veraldar. Borgin Flórens er þekkt fyrir slík söfn, t.d. Pitti Palace og Uffizi galleríið. Hér eru heimasíður safnanna: ☼Uffizi galleríið☼ ☼Pitti Palace☼

Í Feneyjum er Peggy Guggenheim safnið og Accademia galleríið og söfnin í Vatíkaninu mynda stærsta listasafn heims.

Kirkjur á Ítalíu eru margar hverjar ótrúlega fallegar og listaverk í sjálfum sér. ☼Hér er vefur á ensku um kirkjur á Ítalíu með myndum☼

Veðurfar ☼veðrið á Ítalíu í dag☼
Loftslag og veðurfar á Ítalíu er mjög breytilegt eftir landsvæðum. Í fjallahéruðunum í norðri er meginlandsloftslag. Þar er hlýtt á sumrin með rigningu af og til en á veturna fer hitinn oft niður fyrir frostmark og í borgunum er þurrt, rakt og gjarnan þoka. Við strendurnar er miðjarðarhafsloftslag og eftir því sem sunnar dregur verður heitara og þurrara. Á veturna er ekki jafn kalt þar, hitinn getur verið um 10 – 20 °C á meðan það er frost á Norður-Ítalíu. Á sumrin er ekki jafn mikill hitamunur milli landsvæða en þá er hitinn á Ítalíu eitthvað um 24°C að meðaltali.
Frá júní fram í september er sjórinn nógu hlýr til sunds.

Landslag  ☼landslagsmyndir☼
Á Ítalíu er mikið fjalllendi enda eru þar tveir miklir fjallgaðar. Við norðurlandamærin eru Alpafjöllin og eftir skaganum endilöngum liggja Appenínafjöll. Hæsti tindur Ítalíu er Mont Blanc (4810 m). Á milli þessara miklu fjallgarða er Pódalurinn en þar rennur áin Pó með öllum sínum þverám út í Adríahaf. Pódalurinn er einstaklega frjósamur. Einnig er að finna sléttlendi sumstaðar við strendur Ítalíu en þar er hættara við þurrki. Fleiri stórar ár renna um landið, þ.á.m. Arnó, Adige og Tíberfljót. Í norðurhluta landsins eru nokkur stöðuvötn, það stærsta heitir Garda.
Á Ítalíu er einnig að finna nokkur virk eldfjöll. Þau frægustu eru Etna, Vesúvíus og Stromboli. Jarðskjálftar verða af og til og einnig er á mörgum stöðum að finna jarðhita.

Landnýting og náttúruauðlindir
Ræktanlegt land á Ítalíu er um 26% og varanleg ræktun þekur um 9% lands. Ítalir eru einn stærsti vínframleiðandi heims. Af öðrum uppskerutegundum má nefna hveiti, kartöflur, korn, hrísgrjón, ávexti og ólífuolíu. Ítalir framleiða einnig mikið af ostum og veiða fisk. Það má segja að þeir séu nánast sjálfum sér nægir hvað varðar fæðuframleiðslu.
Auk þess framleiða Ítalir stál og járn en í jörðu er að finna mikið af efnum, s.s. kol, kvikasilfur, sink, pottösku, marmara, barít, asbest, vikur, feldspar, brennistein, náttúrulegt gas og hráolíu.

Dýralíf ☼ljósmyndir af dýrum☼
Á Ítalíu er að finna geysilega fjölbreytt lífríki, bæði hvað varðar plöntur og dýr. Þar hafa verið skráðar fleiri en 57.000 dýrategundir, sem er með því mesta sem gerist í Evrópu. 86% dýralífs er á landi og 14% í vötnum eða sjó. 2/3 dýraríkinsins eru skordýr.
Sumar einstakar héra-, leðurblöku-, hjartar- og músategundir er aðeins að finna á Ítalíu auk ýmissa frosk-, salamöndru-, eðlu-, og skjaldbökutegunda. Þar er fjölbreytt fuglalíf og ótal fiskar í sjó.

Ógnir náttúrunnar
Á Ítalíu verða stundum aurskriður, snjóflóð, eldgos, jarðskjálftar og flóð.

Atvinnulíf
Það má segja að efnahagslíf landsins byggist á landbúnaði í suðri og iðnaði í norðri en þar eru mörg lítil og meðalstór fyrirtæki. Þau framleiða til að mynda matvæli, bíla, föt og skó, vefnaður og keramik. Minna en 10% íbúa starfa við landbúnað sem þó er mjög mikilvæg atvinnugrein. Ferðamannaiðnaðurinn er einnig veigamikill þáttur. Yfir 60% íbúa starfa í þjónustugreinum og um 30% í iðnaði.

Útflutningur: M.a. framleiðsluvélar, vélknúin ökutæki, flutningatæki, kemísk efni, matur, drykkur, tóbak, steinefni og málmar. Helstu viðskiptalönd eru Þýskaland, Frakkland, Bandaríkin, Spánn, Bretland, Sviss, Holland, Belgía og Kína.

Um 7,5 % (árið 2009).

Peningar
Gjaldmiðill: Ítalir tóku upp evru árið 2002. Áður var ítölsk líra í umferð.