Menningaráfall greinist í fimm stig. Hvert stig getur verið langvarandi eða birtist bara við ákveðnar aðstæður. Það er mikilvægt að gera sér grein fyrir að menningaráfall er fullkomlega eðlilegt ástand sem verkar mismunandi á menn, alveg eins og sorg, áföll og annað álag í lífinu. Sumir sýna sterkari viðbrögð en aðrir og ekki reyna allir öll stig menningaráfalls.

FYRSTA STIGIÐ hefur oft verið kallað hveitibrauðsstigið. Það einkennist af spennu og væntingum. Á meðan á því stendur njóta menn þeirrar spennu sem fylgir því að vera á nýjum stað þar sem allt er áhugavert. Sumt fólk fer aldrei af þessu upphafsstigi áhugans sem fylgir því að vera í útlöndum. Það er allan dvalartíma sinn í mildu sæluástandi og hegðar sér eins og eilífðartúristar: ferðast á nýja og spennandi staði, binst vináttuböndum eingöngu við aðra landa sína og heldur við gömlum lífsháttum. Hjá flestum ganga hveitibrauðsdagarnir hins vegar yfir og þá lenda þeir á öðru og erfiðasta stigi menningaráfallsins.

ANNAÐ STIGIÐ er hið eiginlega áfall. Því kynnumst við hjá nemendum okkar í móttökudeildinni. Þess vegna er fjallað ítarlegar um annað stigið en hin.

Það einkennist af kjarkmissi og almennri vanlíðan. Skapgerðarbreytingar gera vart við sig, þunglyndi, vanmáttarkennd og pirringur, fólk er auðsæranlegra og grátgjarnara, hefur meiri áhyggjur af heilsu sinni, þjáist af höfuðverk, magaverk og kvartar undan sársauka og ofnæmi. Einbeitingaerfiðleikar koma oft fram og draga úr getunni til að læra nýtt tungumál. Þessi áhrif auka enn meira á kvíðann og streituna.

Í kjölfarið brotnar sjálfsmyndin og menn eiga erfitt með að leysa einföld vandamál. Samræður á þessu stigi snúast um hluti sem ekki er hægt að kaupa, það sem maður verður að komast af án, og allt það sem fólkið í nýja landinu gerir „vitlaust“ (sem þýðir „öðruvísi“). Það má hugsa sér þetta sem flóttastig því á þessum tíma er alltaf verið að hugsa um að snúa til baka til gamla landsins.

Fólk hneigist til að líta á sína eigin menningu sem einu leiðina til að gera hlutina. Þessari afstöðu hefur verið gefið nafnið „etnósentrismi“ eða þjóðhverfa. Það er sú trú að eigin menning, kynþáttur og þjóð séu nafli alheimsins. Einstaklingar samsama sig sínum eigin hópi og háttum hans. Allar gagnrýnar athugasemdir eru teknar sem ögrun við einstaklinginn jafnt sem hópinn. Ef þú gagnrýnir mig ertu að gagnrýna landið mitt, ef þú gagnrýnir landið mitt ertu að gagnrýna mig.

Þess vegna sýnir fólk gjarnan fjandsamlega og árásargjarna andstöðu gagnvart gestgjafalandinu á öðru stigi menningaráfallsins. Þessi fjandskapur sprettur af eðlilegum erfiðleikum sem fjölskylda eða einstaklingur verða fyrir á aðlögunarferlinu. „Mér líður hræðilega illa í nýja landinu, það hlýtur að vera eitthvað mikið að hér“!!!
Það eru skólavandamál, tungumálaerfiðleikar, húsnæðisvandræði, vandi með atvinnu og sú staðreynd að fólkinu í gestgjafalandinu er bara nákvæmlega sama um þessi vandamál eða virðist ekki skilja þau. Afleiðingin er árásargirni og vanlíðan yfir að fólkinu líki alls ekki við útlendinga.

Þess vegna er mikilvægt að gera sér grein fyrir menningaráfalli og átta sig á hvað er að gerast í samskiptum manna. Mikilvægt er að gæta að framkomu gagnvart fólki sem þjáist af menningaráfalli. Framan af er oft tekið vel á móti fólki en þegar frá líður og nýjabrumið fer af snýst viðmótið oft upp í fálæti eða jafnvel andúð sem innflytjendur upplifa sem fjandskap. Þannig getur magnast upp árásarhneigður fjandskapur á báða bóga.

Í stað þess að skoða erfiðleikana í menningarlegu samhengi þá er talað um þessi vandræði eins og þau séu sérstaklega búin til af gestgjafalandinu til að valda gestinum vandræðum. Undir slíkum kringumstæðum verður til hringrás af stöðluðum ímyndum sem geta leitt til árekstra ef fólk gætir þess ekki að temja sér umburðarlyndi: „Þessir Íslendingar“ eða „þessir nýbúar“ eru svona og svona…….!

ÞRIÐJA STIG menningaráfalls einkennist af því að maður fer að sökkva sér niður í nýja lífshætti. Með þolinmæði er hægt að komast á þetta stig í lok fyrsta ársins. Lykilatriði í nýrri menningu fara að lærast og sjaldnar verður vart við fyrri óreiðu og stefnuleysi. Samskipti eru tekin upp við innfædda, t.d. nágranna og vinnufélaga eða skólafélaga. Orðaforði og framburður nýja tungumálsins lærist. Í stað þess að standa fyrir utan og horfa gagnrýnum augum á menninguna sökkva menn sér í lífshætti nýja landsins.

FJÓRÐA STIGIÐ er lokastig aðlögunarinnar og einkennist af fullri þátttöku í lífsháttum nýja landsins. Nú er sjaldan hugsað um „þá“ og „okkur“. Menn hafa aðlagast lífinu bæði hvað varðar tilfinningar og almenna virkni og lifa jafnáreynslulausu lífi og áður en flutt var.

FIMMTA STIGIÐ: Löngu síðar þegar flutt er til baka til heimalandsins gerist nokkuð óvænt. Menn finna fyrir fimmta stigi menningaráfallsins. Það er kallað menningaráfall afturábak eða endurkomuáfall og kemur þegar snúið er heim á ný. Heimalandið er ekki þægilegt lengur því maður hefur verið lengi í burtu og líður orðið vel með siði og venjur sem tilheyra nýjum lífsstíl. Margt hefur breyst og það getur tekið dálítinn tíma að venja sig við lífshætti, bendingar og tákn sinnar eigin menningar.