Fréttir af kennslunni

Komiði sæl og blessuð,

Haustfríið komið og farið, tíminn líður sannarlega hratt! Kennslan hefur gengið vel og það hefur verið gaman að kynnast öllum þessum indælu börnum ykkar. Fyrir haustfrí voru yngstu 2-3 árgangarnir að fræðast og vinna með íslensku sveitina og húsdýrin. Það er auðvitað takmarkað hve mikið er hægt að gera á svo stuttum og fáum kennslutímum en við nýttum tímann í botn og fjölluðum um lífið í sveitinni.

Elstu hóparnir (frá 3. bekk í Gladsaxe skóla og 4. bekk í Enghavegård skóla) unnu með íslenskar þjóðsögur. Það þótti þeim flestum (eða öllum) spennandi og það var sérstaklega gaman að heyra sögurnar sem nemendur skrifuðu sjálfir.

Allir læsir nemendur ættu að vera komnir með lesbækur sem þeir ættu að lesa í heima. Eins og ég hef sagt áður er svo mikilvægt að nemendur nái góðri lesfimi og færni í lestri á íslensku, þá eru þeim nánast allir vegir færir. Eflir m.a. orðaforða (sem er oft ábótavant hjá börnum esm búa erlendis), stafsetningu og málfræði (sjá uppbyggingu setninga, beygingar orða ofl.). Lestur hefur mikið að segja. Því langar mig að brýna fyrir foreldrum að láta börn sín lesa heima og þau yngstu sem enn eru að þjálfa sjónminni og lesfimi ættu að lesa hverja blaðsíðu 2-3 sinnum (hægt er að taka tímann ef þeim vantar hvatningu og sjá þá hvort þau bæti tímann þegar þeir lesa aftur).

Ég fór til Íslands í haustfríinu og fékk leyfi til að kaupa nokkrar nýjar bækur. Ég fann tvær nýlegar og góðar bækur um Ísland sem ég ætla að vinna með núna næstu vikurnar. Í þessari viku ræðum við um eldfjöll og eldgos á Íslandi (allir hópar).  Næstu vikur fara því í að fræðast um landið okkar og íslenska náttúru.

Í lok nóvember/byrjun desember förum við í hátíðarstemningu og ræðum um og vinnum með jólahátíðina og því sem henni fylgir. Mér þætti gott að vita upp á skipulag kennslunnar ef börn ykkar fara fyrr í jólafrí og koma seinna aftur (t.d. þau sem fara til Íslands). Þið megið því endilega senda mér línu ef svo er.

Þið vitið svo að þið eruð alltaf velkomin að hafa samband.

Bestu kveðjur,
Edda

Birt í Uncategorized | Slökkt á athugasemdum við Fréttir af kennslunni

Fyrsta kennsluvikan

Þá er fyrsta kennsluvikan hafin. Hún hófst í Enghavegård skóla í dag og mun hefjast í Gladsaxe skóla á morgun. Ég veit ekki fyrren á morgun í hvaða stofu við verðum þannig að ég mun sækja nemendur í 1. og 2. bekk í SFO og kennslustofurnar sínar á morgun klukkan eitt og fara með þeim í stofuna. Ég læt svo vita í hvaða stofu við verðum. 5.-7. bekkur verður á Tobaksvejen þar sem öll kennsla þeirra fer þar fram. Við fáum stofu þar fyrst á fimmtudaginn.

Fyrstu kennslustundirnar fara í að kynnast nemendum og sjá hvar þeir eru staddir. Ég er líka enn að bíða eftir að fá fjármagn fyrir kennsllugögnum en þá munu allir fá námsbækur við hæfi. Í þessari viku fá allir nemendur ritunarverkefni í heimanámi. Ég er að skoða stöðu þeirra í ritun en foreldrar mega gjarnan hjálpa þeim sem þurfa og sérstaklega þessum yngri (einhver þeirra yngstu fá þó verkefnablöð). Þá geta foreldrar skrifað það sem nemendur segja og nemendur svo sporað í stafina og jafnvel myndskreytt fyrir neðan. Foreldrar mega svo meta hve langir textarnir eru, eftir hæfni barnsins.

Bestu kveðjur,

Edda

Birt í Uncategorized | Slökkt á athugasemdum við Fyrsta kennsluvikan

Stundatafla

Jæja þá er ég búin að fara á fund í Enghavegård skóla, fá úthlutaðri kennslustofu og fá stundatöfluna samþykkta. Kennslan þar hefst á morgun og ég er að bíða eftir að fá úthlutaðri kennslustofu í Gladsaxe skóla en er að vona að kennslan þar hefjist einnig í vikunni. Ég læt vita þegar ég hef fengið stofu og hvenær kennslan getur hafist. Í fyrsta tímanum mun ég skoða hvar nemendur eru staddir í íslenskunni og heyra væntingar þeirra til námsins. Ég er síðan að bíða eftir að fá fjármagn frá kommúnunni til að kaupa kennslugögn frá Námsgagnastofnun. Það líða því einhverjar vikur þar til við fáum gögnin en það er þó til ágætt safn bóka sem við munum notast við fram að því.

Stundataflan er hér

Enghavegård skóli:

0.-3. bekkur á mánudögum kl 13:00-14:30

4.-9. bekkur á mánudögum kl 14:30-16:00

(í fjölskyldukennslustofunni)

Gladsaxe skóli:

0. bekkur á miðvikudögum kl 12:15-14:00

1. -2. bekkur á þriðjudögum kl 13:00-15:00

3.-4. bekkur á miðvikudögum kl 14:00-16:00

5.-7. bekkur fimmtudögum kl 13:45-15:45

Um miðja kennslustund verður haldið hlé og þá er gott að nemendur séu með nesti sem þeir geta fengið sér þar sem þeim veitir eflaust ekki af orku eftir langan skóladag.

Svo vil ég minna þá sem eiga eftir að skila mér útfylltum spurningalista að gera það sem fyrst á netfangið eddarun1@gmail.com

Bestu kveðjur,

Edda

Birt í Uncategorized | Slökkt á athugasemdum við Stundatafla

Spurningalisti

Ég er búin að senda spurningalista á netföng foreldra Gladsaxe skóla. Þeir sem ekki hafa fengið póst frá mér skulu senda mér póst á eddarun1@gmail.com og þá sendi ég spurningalistann. Foreldrar barna í Enghavegård skóla mega einnig senda mér póst því ég hef ekki enn fengið aðgang að netföngum þeirra.

Kv.
Edda

Birt í Uncategorized | Slökkt á athugasemdum við Spurningalisti

Verið velkomin á síðu íslenskukennslunnar í Gladsaxe!

Hér munu koma fréttir, tilkynningar og annað sem tengist kennslunni. Þessi síða er ætluð foreldrum og ég mæli með að allir lesi það sem ég hef sett inn á undirsíðurnar (á slánni hér að ofan). Ég er enn að bíða eftir nemendalista og aðgangi að intranu hjá öðrum skólanum og því get ég ekki birt stundatöflur og hafið kennslunna fyrr en búið verður að ganga frá því. Ég mun á næstunni senda ykkur foreldrum spurningalista sem ég vil að þið fyllið út og sendið mér aftur áður en kennslan hefst. Þar mun ég spyrja ýmissa spurninga sem ég tel nauðsynlegt að fá svör við til að meta stöðu nemenda og sjá hvaða þætti þurfi jafnvel sérstaklega að þjálfa. Ég þarf síðan að kanna hvar hver nemandi er staddur en það flýtir fyrir að vita fyrirfram helstu upplýsingar, þar sem þetta eru margir nemendur.

Svo vonast ég bara til þess að geta byrjað að kenna gullmolunum ykkar sem fyrst 🙂

Hafið endilega samband ef spurningar vakna!

Bestu kveðjur,

Edda

eddarun1@gmail.com

gsm. 53494658

Birt í Fréttir | Slökkt á athugasemdum við Verið velkomin á síðu íslenskukennslunnar í Gladsaxe!