Þátttaka foreldra

Hér langar mig aðeins að brýna fyrir um mikilvægi þess að foreldrar séu virkir þátttakendur í íslenskunámi barna sinna. Þar sem kennslan er aðeins um tvær kennslustundir á viku er mikilvægt að nemendur vinni líka heima. Þar sem íslensku nemendurnir hérna í Gladsaxe umgangast yfirleitt reglulega íslenska félaga eru þeir yfirleitt nokkuð sterkir í leikmálinu eða hinu daglega máli. En skólamálið þurfa þeir einnig að læra/viðhalda, sérstaklega ef þeir hyggjast síðar stunda nám á Íslandi. Þá munu þeir eiga fullt í fangi með að læra hugtök í stærðfræði og eðlisfræði sem dæmi og því munar þá miklu að þurfa ekki líka að læra öll hugtök og heiti í íslenskunni. Félagslega hliðin mun einnig án efa ganga betur ef nemendur eru vel talandi, fallbeygja rétt oþh.

Hér koma nokkrir punktar úr meistaraprófsritgerðinni minni sem gott era ð hafa í huga.

Móðurmálið tengist fyrstu tilfinning­um barns á sjálfsmynd sinni sem styrkist í samskiptum við fjölskylduna og nánasta umhverfi. Mikilvægt er að barn fræðist um gildi fjölskyld­unnar og öðlist jafnframt heimssýn. Að því geta foreldrarnir stuðlað með því að koma gildunum áfram meðal annars í gegnum barnalög, leiki, rím, kvæði, sögur, upplestur og fleira (Klausen og Hodal, 2005). Mér finnst ótrúlega mikilvægt að lesnar séu íslenskar bækur fyrir yngri börnin og þeim kenndar íslenskar þulur, rím, lög og leikir! Síðan er tilvalið að segja eldri börnum meðal annars frá íslenskum þjóðsögum, goðum og víkingum. Börn, bæði ung og eldri hafa eflaust gaman af þrautum svo sniðugt er að leggja fyrir þau orðaþrautir sem reynir á rökhugsun þeirra. Það er í raun svo ótalmargt hægt að gera til að efla meðal annars málvitund og orðaforða barna/unglinga og fjölskyldan getur um leið átt indæla stund saman. Þótt dagarnir eru yfirleitt þéttskipaðir er yfirleitt alltaf hægt að gefa sér tíu mínútur í spjall (söng, lestur…) með barni eða börnum sínum. Það mun tvímælalaust skila árangri!

Sé móðurmáli ekki haldið við er hætta á að samskipti og tjáning milli barna og foreldra og málumhverfis þeirra almennt verði takmörkuð (ef börnin geta ekki tjáð sig fullkomlega á móðurmálinu og foreldrarnir skilja ekki alltaf annað málið eins vel og börnin). Börn, sem alast upp við tvö tungumál samtímis eða læra nýtt tungumál á grunnskólaaldri og viðhalda jafnframt móðurmálinu, tali, lestri, ritun o.s.frv., eru vel í stakk búin til að takast á við nám á hvoru máli fyrir sig (Menntamálaráðu­neytið, 2007)! Það segir sig væntanlega sjálft að ef börn eru vel talandi, skrifandi og læs á íslensku mun þeim ganga betur að hefja nám í íslenskum skóla.

Jákvætt viðhorf foreldra til íslenskukennslunnar skiptir gríðarlegu máli!  Foreldrar ættu að vera hvetjandi og sýna börnum sínum að þeim finnist námið skipta máli. Meðal annars með því að sýna kennslunni og heimanáminu áhuga og veita þeim aðstoð. Áhugi smitar og hvatinn skapar öflugasta drifkraftinn til að læra tungu­málið og síðar viðhalda námsferlinum sem vill stundum verða langur og leiðigjarn. Hvatinn hefur einmitt almennt verið viðurkenndur af kennur­um og rannsakendum sem einn af helstu áhrifaþáttum á árangur í tungu­málanámi (Dörnyei, 1998).

Að lokum vil ég minna foreldra á að lesa fyrir börn sín íslenskar bækur. Það er líka til mikið úrval af hljóðbókum og íslenskum leikritum sem notalegt er að hlusta á eftir langan skóladag! Hvetja ætti eldri börn sín til að lesa sjálf eins oft og auðið er því meðal annars eykst máltilfinningin og orðaforðinn með lestri bóka! Ég mæli með að minnka tölvunotkun eða sjónvarpsgláp um 15 mínútur á dag og lesa í staðinn. Þau munu án efa þakka ykkur síðar! 🙂

Heimildir

Dörnyei, Z. (1998). Motivation in Second and Foreign Language Learning. Language Teaching, 31,117-135. Sótt 27. mars 2011 af http://journals.cambridge.org/action/displayAbstract;jsessionid=A3AB5D06B4D71549874C7ED86556D82D.tomcat1?fromPage=online&aid=2773888

Klausen, L. og Hodal, G. (2005). Et sprog – flere sprog (1. útgáfa). Kaupmannahöfn: Gyldendals bogklubber.

Menntamálaráðuneytið. (2007). Aðalnámskrá grunnskóla – íslenska. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.