Fréttir af kennslunni

Komiði sæl og blessuð,

Haustfríið komið og farið, tíminn líður sannarlega hratt! Kennslan hefur gengið vel og það hefur verið gaman að kynnast öllum þessum indælu börnum ykkar. Fyrir haustfrí voru yngstu 2-3 árgangarnir að fræðast og vinna með íslensku sveitina og húsdýrin. Það er auðvitað takmarkað hve mikið er hægt að gera á svo stuttum og fáum kennslutímum en við nýttum tímann í botn og fjölluðum um lífið í sveitinni.

Elstu hóparnir (frá 3. bekk í Gladsaxe skóla og 4. bekk í Enghavegård skóla) unnu með íslenskar þjóðsögur. Það þótti þeim flestum (eða öllum) spennandi og það var sérstaklega gaman að heyra sögurnar sem nemendur skrifuðu sjálfir.

Allir læsir nemendur ættu að vera komnir með lesbækur sem þeir ættu að lesa í heima. Eins og ég hef sagt áður er svo mikilvægt að nemendur nái góðri lesfimi og færni í lestri á íslensku, þá eru þeim nánast allir vegir færir. Eflir m.a. orðaforða (sem er oft ábótavant hjá börnum esm búa erlendis), stafsetningu og málfræði (sjá uppbyggingu setninga, beygingar orða ofl.). Lestur hefur mikið að segja. Því langar mig að brýna fyrir foreldrum að láta börn sín lesa heima og þau yngstu sem enn eru að þjálfa sjónminni og lesfimi ættu að lesa hverja blaðsíðu 2-3 sinnum (hægt er að taka tímann ef þeim vantar hvatningu og sjá þá hvort þau bæti tímann þegar þeir lesa aftur).

Ég fór til Íslands í haustfríinu og fékk leyfi til að kaupa nokkrar nýjar bækur. Ég fann tvær nýlegar og góðar bækur um Ísland sem ég ætla að vinna með núna næstu vikurnar. Í þessari viku ræðum við um eldfjöll og eldgos á Íslandi (allir hópar).  Næstu vikur fara því í að fræðast um landið okkar og íslenska náttúru.

Í lok nóvember/byrjun desember förum við í hátíðarstemningu og ræðum um og vinnum með jólahátíðina og því sem henni fylgir. Mér þætti gott að vita upp á skipulag kennslunnar ef börn ykkar fara fyrr í jólafrí og koma seinna aftur (t.d. þau sem fara til Íslands). Þið megið því endilega senda mér línu ef svo er.

Þið vitið svo að þið eruð alltaf velkomin að hafa samband.

Bestu kveðjur,
Edda

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.