Um mig

Edda Rún Gunnarsdóttir heiti ég og er búsett í Herlev ásamt manni og tveimur dætrum. Við fluttum til Danmerkur sumarið 2008. Ég útskrifaðist sem grunnskólakennari af yngri barna sviði úr Kennaraháskóla Íslands sumarið 2008. Þá hóf ég framhaldsnám í menntunarfræðum –fjölmenningu og hef nýlega lokið því námi. Meistaraprófsritgerð mín fjallaði um íslensku móðurmálskennsluna í Danmörku og Svíþjóð þar sem ég tók viðtöl við fimm íslenskukennara í Danmörku og fjóra í Svíþjóð. Ég var að skoða hvort opinber stefna stjórnvalda þessara landa hefðu áhrif á kennsluna en svo virðist vera. Kennslan virðist litin alvarlegri augum í Svíþjóð og hún talin afar mikilvæg. Sænsk langtímarannsókn sem birt var árið 2008 leiddi þær áhugaverðu niðurstöður í ljós að tvítyngdir nemendur sem nutu móðurmálskennslu hlutu hærri meðaleinkunn í sænska grunnskólanum en aðrir nemendur, bæði erlendir sem ekki voru í móðurmálskennslu og nemendur af sænskum uppruna. En sú rannsókn var í raun kveikjan mín að rannsókn minni. Hún sýnir að móðurmálskennslan hljóti að skipta máli. Það hefur komið til umræðunnar að gera svipaða rannsókn í Danmörku en ég hef ekki heyrt hvort það sé enn á döfinni og þá hvenær. Í „gildi móðurmálskennslu“ fjalla ég nánar um þetta sem og mikilvægi þess að tvítyngdir nemendur fái kennslu í móðurmáli sínu.

Mér til mikillar ánægju gafst mér tækifæri til að taka við íslenskukennslunni hér í Gladsaxe. Eftir heilmikið púsluspil tókst mér að setja saman stundaskrá þannig að allir nemendur ættu að komast. Ef nemendur vilja sækja kennsluna getið þið haft samband við mig ef þið eruð búsett í Gladsaxe, annars þarf skráningin að fara fram í gegnum eigið sveitarfélag.

Ég legg áherslu á að þeir nemendur sem ætla að taka þátt í kennslunni mæti í tíma og geri heimavinnu sína. Það er vegna þess að annars getur kennslan varla verið markviss og nemendur fá þá ekki eins mikið út úr henni. Það mun alltaf vera heimavinna (mismikil) og vona ég að foreldrar gefi sér tíma í að aðstoða börn sín með hana. Í ,,þátttaka foreldra“ fjalla ég um mikilvægi heimanáms. Ef nemandi kemst ekki í vil ég fá tilkynningu frá foreldrum á intra, tölvupósti eða símleiðis. Áherslur og markmið nemenda eru einstaklingsbundin og fara einnig eftir kröfum og væntingum foreldra. Í „markmið kennslunnar“ má annars sjá nánar um það.

Hafið endilega samband ef einhverjar spurningar vakna. Mér finnst mikilvægt að foreldrar séu með á nótunum og séu virkir þátttakendur í íslenskunámi barna sinna. Áhugi smitar!

Bestu kveðjur,

Edda

eddarun1@gmail.com
gsm: 53494658