Gildi móðurmálskennslu

Það er í raun ótrúlegt að ekki skuli vera lagt meiri áhersla á að tvítyngdir nemendur njóti kennslu í móðurmáli sínu þegar fleiri rannsóknir hafa sýnt fram á árangur hennar og mikilvægi. Hér ætla ég fjalla um mikilvægi hennar því ég held það veiti ekki af að minna á gagn hennar og gildi. Ég hef valið nokkra góða punkta úr meistaraprófsritgerðinni minni. Þeir sem vilja lesa sig frekar til um efnið geta kíkt í heimildaskrána hér að neðan.

Mikilvægt er að nemendur fái tækifæri til að þróa móðurmálið til fulls innan og utan skóla í formlegum, málfarslega krefjandi aðstæðum. Það er sér­staklega mikilvægt ef móðurmálið er ekki skólamál nemandans. Hann ætti einnig að fá tækifæri til að nota málið utan skólans því annars getur verið erfitt að sjá tilganginn með því einu að þurfa að sitja í tímum og læra það (Skutnabb-Kangas, 1990). Margir nemendur hér í Gladsaxe umgangast íslenska félaga yfirleitt reglulega sem er því afar jákvætt. Þekking á móðurmálinu og trú á eigin færni í málnotkun gefur nemendum færi á að beita málinu á áhrifaríkan hátt. Sjálfstraust og góð þekking fæst með æfingu og glímu við margvísleg viðfangsefni (Menntamálaráðuneytið, 2007). Með því að styrkja móðurmál nemenda samhliða öðru málinu alla skólagönguna mun ávinningurinn verða velgengni í námi, framfarir á vitsmunalegum sviðum og það sem jafnvel er verðmætast, sjálfsmynd þeirra og sjálfstraust eykst. Foreldrar sjá oft ekki mikilvægi þess að börn þeirra njóti móðurmálskennslu. Þeir telja þau jafnvel vera vel talandi á móðurmálinu og því skuli áherslan lögð á seinna málið, þar sem námið í skólanum fer yfirleitt fram á því (Carder, 2007). Því finnst mér mikilvægt að brýna fyrir um gildi móðurmálsins, námi í því og þróun þess og viðhalds.

Móðurmálið gegnir sérstöku hlutverki, þar sem það leggur grunninn að tileinkun annarra mála og barnið notar það til viðmiðunar við nám í nýju máli (Larsen, 2008). Það er verkfæri til náms. Þótt þekk­ingar­þróun geti átt sér stað á mismunandi tungumálum eru forsendurnar ekki þær sömu. Kennsla í meirihlutamálinu sem tvítyngdur nemandi hefur ekki enn sömu færni í eins og skólafélagarnir felur í sér ákveðna hindrun. Það hefur einnig afgerandi þýðingu fyrir persónu- og menningarlega sjálfsmynd og fyrir vitsmuna- og til­finningaþroska einstaklings (Concha, 2007).

Tvítyngi hefur jákvæð áhrif á vitsmunaþroska þegar báðum tungu­málunum er viðhaldið (Menntamálaráðuneytið, 2007). Thomas og Collier (1997) halda því fram að til að tryggja vitsmunalegan og fræðilegan árangur nemenda í öðru máli sé mikilvægt að fyrsta málkerfi nemenda, munnlegt og skriflegt, hafi þróast á hátt vitrænt stig. Fræðileg þekking og hugtakaþróun flyst þá frá fyrsta málinu yfir á annað málið.

Flestir fræðimenn sem fjalla um menntun eru sammála um að ef traustur og góður grunnur er lagður á fyrsta skólastigi nemanda öðlist hann sjálfstraust og öryggi sem þarf til að þroskast og menntast. Að ná góðum tökum á móðurmálinu er þar mikilvægur þáttur (Hanna Ragnarsdóttir, 2002).

Í rannsókn sinni komust Thomas og Collier að því að formleg kennsla í móðurmálinu hefur forspárgildi um árangur í námi á seinna málinu. Þeir komust að því út frá öllum breytum um bakgrunn nemenda (Thomas og Collier, 1997). Þeir telja afar mikilvægt að vitsmunaþroski haldi áfram að þróast á móðurmáli nemenda, sérstaklega í gegnum grunnskólaárin. Þegar skólaganga nemenda hefst hafa þeir yfirleitt lokið sex ára þróun vitsmunaþroskans og því miklvægt að hann haldi áfram að þróast á sama hraða og gerist hjá innfæddum nemendum á þeirra móðurmáli. Víðtæk rannsókn leiddi í ljós að börn sem ná fullum vitsmunaþroska á tveimur tungumálum hafa vitsmunalega yfirburði yfir eintyngd börn. Niðurstöður rannsóknar Hyltenstam og Tuomela (1996) styðja þetta. Þeir halda því fram að móðurmálskennsla stuðli að góðum námsárangri, sterkri þjóðernislegri sjálfsmynd og hafi þýðingu fyrir þróun móðurmáls, annars máls og þekkingaröflun.

Ég vona að farið verði að fjalla meira um mikilvægi móðurmálskennslunnar í fjölmiðlum og að flestir sjái hve dýrmætt það er að viðhalda móðurmáli sínu, ekki aðeins ef fólk hyggst snúa aftur til Íslands heldur meðal annars fyrir sjálfsmynd barnanna, tengsl þeirra við uppruna sinn og vitsmunaþroskann sem gegnir svo gríðarlegu hlutverki í þroska þeirra og námi.

Heimildir

Carder, M. (2007). Bilingualism in International Schools. A Model for Enriching Language Education. Clevedon: Multilingual Matters Ltd.

Concha, H. (2007). Modersmålsundervisningen i Sverige –en krönika. Malmö: Modersmålsundervisningen i Malmö.

Hanna Ragnarsdóttir. (2002). Markvisst leikskólastarf í fjölmenningarlegu samfélagi. Uppeldi og menntun, 11:51-77.

Hyltenstam, K. og Tuomela, V. (1996). Hemspråksundervisningen. Í Hyltenstam, K. (ritstjóri), Tvåspråkighet med förhinder? Invandrar- och minoritetsundervisning i Sverige (bls. 9-101). Lund: Studentlitteratur.

Larsen, V. (2008). Midt i en mangfoldighed af børn. Pædagogisk svar på en multikulturel samfundsudvikling. Frederikshavn: Dafolo.

Menntamálaráðuneytið. (2007). Aðalnámskrá grunnskóla – íslenska. Reykjavík: Menntamálaráðuneytið.

Skutnabb-Kangas, T. (1990). Minoritet, sprog og racisme. Danmörk: Forlaget Tiden

Thomas, W., P. og Collier, V. (1997). School Effectiveness for Language Minority Students. Washington, DC: The George Washington University

*Hér er svo linkur á sænsku rannsóknina sem birt var árið 2008 og leiddi þær niðurstöður í ljós að tvítyngdir nemendur sem nutu móðurmálskennslu hlutu hærri meðaleinkunn í sænska grunnskólanum en aðrir nemendur, bæði erlendir sem ekki voru í móðurmálskennslu og nemendur af sænskum uppruna.

http://www.sprakforsvaret.se/sf/fileadmin/PDF/Annat_modersmaal.pdf