Markmið kennslunnar

Markmið kennslunnar eru einstaklingsbundin og fara einnig að nokkru leyti eftir væntingum og kröfum foreldra, þ.e. hvað þeir telja að börn sín eigi að fá úr kennslunni.  Ég tek mið af stöðu hvers og eins og veiti honum námsefni og heimanám við hæfi. Ég mun leggja áherslu á málörvun nemenda þar sem mikilægt er að geta talað og tjáð sig óhindrað. Ég mun einnig leggja mikla áherslu á lestur og mun hefja stafainnlögn strax í 0. bekk. Markmið mitt er einnig að nemendur þjálfist í ritun og verði færir í að skrifa ýmsar tegundir texta. Menning Íslands og samfélagsfræði mun verða tengd kennslunni og verkefnum þar sem það er ekki síður mikilvægt að nemendur þekki land sitt, kennileiti og menningu. Leikir og söngur verða einnig hluti af kennslunni þar sem ég tel mikilvægt að nemendur kunni helstu söngva og leiki sem nemendur í grunnskólum á Íslandi kunna. Það á sérstaklega við um yngri nemendurna. Reynt verður að hafa kennsluna fjölbreytta og skemmtilega þannig að nemendur sjái að það þurfi ekki að vera leiðinlegt að leggja rækt við og læra móðurmál sitt 🙂

Ég mun hafa þrepamarkmið aðalnámskrár grunnskóla í íslensku til hliðsjónar sem og dönsku námskrána fyrir móðurmálskennslu. Þar sem staða nemenda er afar misjöfn og ekki hægt að ætlast til að þeir fylgi sínum jafnöldrum á Íslandi er þó gott að hafa íslensku námskrána til hliðsjónar.

Linkar á námskrárnar eru hér:

http://www.menntamalaraduneyti.is/utgefid-efni/namskrar/nr/3953

http://www.uvm.dk/service/Publikationer/Publikationer/Folkeskolen/2009/Faelles%20Maal%202009%20-%20Modersmaalsundervisning.aspx

Nemendur verða metnir með símati og í lok hverrar annar fá þeir skriflegar umsagnir. Mig langar að vera í reglulegu sambandi við foreldra þar sem við getum fjallað um sterkar og veikar hliðar nemenda þannig að við getum þjálfað þá þætti sem sérstök þörf er á. Ég mun reglulega senda út póst til foreldra þannig að þeir sjái hvað við höfum verið og upplýsingar um heimanám. Þessa síðu mun ég einnig nota undir fréttir, tilkynningar og annað sem tengist kennslunni.