Útgefið efni

Fjölmenning á Íslandi

Út er komin bókin Fjölmenning á Íslandi þar sem fjallað er á gagnrýninn hátt um ýmsa þætti fjölmenningarsamfélagsins.

Kaflarnir í bókinni eru tengdir nýlegum rannsóknum í viðkomandi fræðum, bæði á Íslandi og í öðrum löndum. Bókin er ætluð kennaranemum, öðrum háskólanemum, fræðimönnum og kennurum á öllum skólastigum svo og stefnumótandi aðilum.

Helstu efnisþættir bókarinnar eru þróun fjölmenningarlegs samfélags og skólasamfélags, straumar og stefnur í fjölmenningarfræðum, tvítyngi og móðurmál, íslenska sem annað mál, staðalmyndir og fordómar, sjálfsmynd, menning og trúarbrögð, menningarlæsi og íslenskar rannsóknir, m.a. á stöðu og reynslu barna og fullorðinna í fjölmenningarsamfélagi. Enn fremur eru í bókinni svonefndir gluggar um líf innflytjenda á Íslandi, svo og valin ljóð er tengjast viðfangsefninu.

Ritstjórn skipa Hanna Ragnarsdóttir dósent við Kennaraháskóla Íslands, Elsa Sigríður Jónsdóttir lektor við Kennaraháskóla Íslands og Magnús Þorkell Bernharðsson dósent við Williams College.

Útgefendur eru Rannsóknastofa í fjölmenningarfræðum KHÍ og Háskólaútgáfan.