Upplestur úr tvímála bókum

Hvernig er að vera hálf íslenskur og hálf útlenskur?
Dagskrá um gerð bókanna Þankaganga Myślobieg 1 og 2, fjölmenningu og tvítyngi í samvinnu við börn í grunnskóla.
Tími: Nóvember
Fyrir hverja:
Dagskráin eru ætluð öllum grunnskólanemendum.
Lesið blaðsíðu 4 og 5 hér: Þankaganga Myślobieg

Vala Þórsdóttir leikkona og höfundur býður skólum upp á upplestur og samstarf við pólska nemendur í skólanum, þar sem þeir munu lesa á pólsku á móti henni úr bókunum.

Dagskráin er lifandi og skemmtileg og byggir mikið á samvinnu við börnin. Á meðan á henni stendur rúlla teikningar Agnieszku úr bókunum á skjá fyrir aftan.
Þankaganga Myślobieg er samstarfsverkefni Agnieszku Nowak og Völu Þórsdóttur.

Sagan segir á fjörlegan hátt frá hinni tíu ára gömlu íslensk-pólskættuðu Súsönnu sem á við það vandamál að stríða að vera smámælt. Hún er eldklár, forvitin og úrræðagóð sem kemur sér vel þegar hún þarf að greiða úr vandamálum og aðstoða afa og ömmu sem fluttu með fjölskyldunni frá Póllandi til Íslands. Bókina prýða einstaklega skemmtilegar teikningar og leikandi léttur texti sem dregur upp forvitnilega mynd af lífi pólsk-íslensku fjölskyldunnar.

Í tengslum við upplestrana segir Vala frá gerð bókarinnar, rannsóknavinnu og samvinnu við börn á Íslandi í tengslum við bækurnar og könnunarleiðangrum í Póllandi. Hún fjallar um teikningar Agnieszku Nowak og hvernig þær benda á aðra hluti en fjallað er um beint í textanum og segja því aðeins aðra sögu. Hún leiðir umræður við börnin um fjölmenningu og tungumálið. Þótt bækurnar séu á íslensku og pólsku er málefnið mikilvægt fyrir öll börn og þó sérstaklega tvítyngd börn, því þau upplifa gjarnan annan veruleika en börn sem eru alíslensk og hafa aðeins íslensku sem móðurmál. Tvítyngdu börnin taka oft á sig meiri ábyrgð en aðrir krakkar, verða óörugg um hvoru landinu þau tilheyra, upplifa misræmi í þróun tungumálanna og í menningu. Fjölmargir kostir fylgja því þó að vera tvítyngdur og eiga tvöfaldan menningarlegan bakgrunn og Vala vinnur með þá í skólastofunni.

Haustið 2010 fór Vala í samstarfi við Þjónustumiðstöð Breiðholts og verkefnið “vinnum saman” í skólana í Breiðholti með þessa dagskrá. Hún tók einnig viðtöl við pólsk íslenska krakka í skólunum til að vinna út frá í bók 2, sem snérust um það hvernig þau upplifa Pólland versus Ísland, hér á landi og þegar þau eru í Póllandi. Þetta var mikilvægt málefni þar sem Vala var að vinna að seinni bókinni um Súsönnu, þar sem hún fer í fyrsta sinn til Póllands í sumarfrí eftir 6 ára dvöl á Íslandi. Fyrri bókin var einnig unnin eftir röð viðtala við börn og foreldra. Börnin fengu einnig að lesa fyrsta handritið yfir og koma með ráðleggingar sem Vala tók til umhugsunar og nýtti sér eftir þörfum. Því voru bækurnar báðar unnar í samstarfi við börn.

Þankaganga Myślobieg fékk Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna í barnabókaflokki 2011. Hún fékk einnig Vorvinda, viðurkenningu IBBY á Íslandi og er á heiðurslista IBBY international yfir barnabækur og mun ferðast um heiminn næstu 2 ár.

This entry was posted in Bókasafn, Fjölmenning, Innflytjendur, Innflytjendur, Íslenska, Móðurmálið and tagged , , , , , , , . Bookmark the permalink.