Að muna orð
Því oftar sem við rekumst á orð, vinnum með orð því betur munum við það.
Því meir sem nemendur lesa því fleiri orð læra þeir.
Para- eða hópavinna með orð skilar góðum árangri, í samskiptum, samtölum í margvíslegum viðfangsefnum.
Dæmi um viðfangsefni
Er orðið rétt stafsett?
Hvaða eftirfarandi orð eiga saman?
Hvaða orð passar ekki inn í?
Krossgátur.
Flokka orð eftir merkingu.
Finna andheiti.
Finna samheiti.
Ritun með fyrirfram gefnum orðaforða.
Lýsing á mynd.
Rýna í orð
Finna uppruna orðs.
Athuga samsetningu orðsins og þannig uppgötva merkingu þess.
Þýða orð yfir á móðurmál.
Byggja upp orðanet
Samheiti.
Andheiti.
Yfirheiti (t.d. fyrir orðið lóa: farfugl, fugl, hryggdýr).
Undirheiti (fugl: goggur, stél, vængur…).
Tímaraða, )t.d. fóstur, ungbarn, barn, unglingur…).
Skrifa úrdrátt úr texta þar sem lykilorð textans verða að koma fram.
Upplýsingaeyðuæfing
2 nemendur hafa sömu krossgátuna fyrir framan sig, en með sinn hvorn helming orðanna, annar t.d. lárétt orð og hinn lóðrétt orð. Þeir mega ekki segja orðin sem þeir
hafa heldur lýsa hverju fyrir sig og fylla þannig út krossgátuna.
Hlutverkaleikur
Nemendur lesa sögu, grein í blaði eða annað álíka. Setja sig svo í hlutverk og tala saman.
Lausn á vanda
Þú ert nýbúinn að sjá vin þinn stela úr búð í hverfinu þínu. Hvað gerirðu?
Tilkynnir eiganda búðarinnar.
Segir vini þínum að skila þýfinu.
Talar við vin þinn seinna og ráðleggur honum að gera svona aldrei aftur.
Horfir fram hjá því og bara gleymir þessu.
Ræðir þetta við foreldra þína.
Eftirfarandi orð eru sennilega ný fyrir nemendurna: Stela, hverfi, tilkynna, eigandi, þýfi, ráðleggja, horfa fram hjá, foreldrar
Ýmislegt er hægt að gera til að örva orðanotkun
Best er að sleppa tölum fyrir framan gefna möguleika til að forðast að nemendur segi bara tölurnar í stað setninganna eða orðanna.
Til að auðvelda nemendum að skilja ný orð: Útskýra með fleiri orðum og/eða setningum. Bæta við möguleikum. Leika atvik með nemendum.
Skipta möguleikum niður á nemendur þannig að hver verði sérfræðingur í ákveðnum möguleika og kynni hann fyrir hinum og gæta þess að hann fái næga umfjöllun.
Láta nemendur kynna fyrir hópnum hvaða möguleika þeir telja bestan.
Í móttökudeild Háteigsskóla hefur reynst vel að vinna orð í þemavinnu. T.d. um vorið, þá tölum við saman um hvað gerist á vorin:
Á vorin er meiri sól. Grasið verður smám saman grænt. Blóm og tré vakna. Lauf koma á greinar. Farfuglar koma til Íslands. Fuglar búa til hreiður. Fuglar verpa eggjum í hreiður. Ungar koma úr eggjum. Lömb fæðast. O.s.frv.
Mikilvægt er að hafa myndir til að styðjast við.
Ný orð eru endurtekin, börnin teikna myndir og skrifa orð á blað.
Börnin búa til bók, kjölurinn er hannaður í samhengi við vorið, börnin velja sjálf hvernig það er, t.d. eins og sól eða blóm eða með klippimyndum af hreiðri, sól o.s.frv.
og allt í réttum litum. Kennarinn skrifar textann upp aftur en sleppir lykilorðum sem hann listar neðst. Börnin og kennarinn skoða saman hvaða orð á að fara á hvern stað.
Síðan býr kennarinn með hjálp nemenda til krossgátu með orðunum. Kennarinn setur orðin inn í rúðustrikaðan reit og felur með öðrum stöfum.
Hér er hægt að bæta við spurningum:
Hvað verður grænt á vorin?
Hvað vaknar á vorin?
Hver verpir eggjum?
Hvað búa fuglar til?
Þetta er í raun próf sem kennarinn býr til með nemendum sínum. Síðan eiga nemendur að búa til próf sjálfir hver fyrir annan í samræmi við fyrirmyndina; orðafylling, krossgáta, finna orð út úr stafarunum, nemendur eiga einnig að velja einhver orð sem á að teikna og semja spurningar út frá textanum. Prófin fara í bókina.
Bingó
Nemendur eiga að skipta blaði í 4-6 reiti. Þeir velja sér orð úr texta eða viðfangsefni og skrifa eitt orð í hvern reit. Nemendur og kennari skrifa öll orðin sem verið er að læra á litla miða sem þeir brjóta saman og setja í skál. Nú svo er farið í bingóleik, en sá sem dregur miðana (best að kennarinn geri það fyrst) má ekki segja orðið heldur á að leika það eða lýsa því. Bingóspjöldin fara í bókina
Sá frækorni
Börnin sá frækorni í mold í plastdollu. Atburðarásin er nákvæmlega skráð og ný orð lærð á margvíslegan máta.
Dagblöð eða tímarit
Börnin finna myndir sem tengjast vori, klippa út og skrifa texta með og setja í bókina.
Föt og leikir
Með hjálp myndaorðabóka finna börn hvaða föt tengjast vorinu, hvaða leikir, skrifa, teikna og setja í bókina.
Sigríður Ólafsdóttir, apríl 2006
Úr greinasafni Kennslufræði erlendra tungumála í H.Í.
Angela Joe, Paul Nation og Jonathan Newton, English Teaching Forum, jan.1996.
Birgit Henriksen, cand.mag. í ensku og trúarbragðafræði, Kaupmannahafnarháskóla: