Lýsing

Nú eru grunnskólar landsins að fara í frí og eru nemendur tilbúnir eftir langan vetur að njóta sumarsins. Þrátt fyrir það er mikilvægt að viðhalda lestri barnanna okkar yfir sumarið. Sumarfrí þýðir ekki að við hættum að læra. Rannsóknir hafa sýnt að lestrarhæfni flestra nemenda minnkar á sumrin meðan þeir sem lesa reglulega auka hæfni sína. Foreldrar geta viðhaldið læsi og jafnvel aukið það með mörgum skemmtilegum leiðum í sumarfríinu. Með þeim má byggja upp orðaforða, auka lesfærni og vekja upp ómetanlegan áhuga á lestri góðra bóka eða annars lesefnis.
Nemendur þurfa hvíld frá námi og þess vegna er mikilvægt að gera sumarlestur skemmtilegan svo hann veki áhuga barnanna. Hér koma nokkrar leiðir til að gera sumarlestur að skemmtilegum hluta af tilveru barna.
• Lesið eða hlustið á hljóðbækur með barni ykkar daglega. Lesið saman eða leyfðu því að lesa fyrir ykkur. Þið getið jafnvel lesið til skiptis. Hægt er að lesa eða fara í orðaleiki, úti, í bílnum, á ferðalagi, á róló og á rölti um götur bæjarins. Orðaleikir geta t.d. falið í sér gátur, orðarím, finna hljóð (stafi) í orði, klappa atkvæði orðanna, þekkja stafi eða orð í umhverfinu svo fátt eitt sé nefnt.
• Hafið bækur og annað áhugavert lesefni sýnilegt á heimilinu. Verið góð fyrirmynd og lesið sjálf. Kaupið bækur, blöð eða hljóðsnældur eða fáið lánað á næsta bókasafni. Ég minni á að bókasöfn landsins eru ávallt opin almenningi alla virka daga yfir sumarið og er það víða sem útlán eru börnum að kostnaðarlausu. Leyfið barninu að velja hvað lesið er og lesið saman, fyrir alla í fjölskyldunni eða lesið jafnvel sömu bók. Allt þetta getur vakið upp skemmtilegar umræður ykkar á milli. Talið um þau orð sem erfitt er að lesa og veltið vöngum yfir merkingu þeirra.
• Á meðan þið sinnið daglegum verkum er tilvalið að leika orðaleiki. Við innkaupin má gera innkaupalista og lesa á merkingar í búðum, lesa bæklinga verslana og velja hvað kaupa á. Á ferðalögum er gaman að skoða og lesa á götumerkingar, bæjarnöfn og auglýsingaskilti. Kennið börnunum að lesa vegakort því þau geta verið góðir leiðsögumenn.
• Leyfið börnunum að senda póstkort eða bréf til ættingja og vina á ferðalögum sínum. Einnig er gaman að skrifa dagbók sumarsins, t.d. taka saman og fjalla um þær bækur sem þið lásuð.
Ég hef nú aðeins bent á fáeinar leiðir sem aukið geta færni í lestri en mæli með að foreldrar reyni allt það sem þeir telja að komi að gagni og geti verið til þess að börnin okkar komi enn sterkari til leiks í haust. Með ósk um gleðilegt lestrarsumar.
Dröfn Rafnsdóttir, kennsluráðgjafi á Þjónustumiðstöð Breiðholts.