Lýsing

Þegar barn talar tvö eða fleiri tungumál getur verið erfitt að átta sig á stöðu málþroska. Stærsta hindrunin er sú að hvorki foreldrar né starfsfólk skóla hefur forsendur til þess að meta hvort barnið sé að taka framförum á báðum tungumálum og hvort framfarirnar séu aldurssvarandi.

Því skiptir afar miklu máli fyrir leikskóla að eiga góð og gagnleg samtöl við foreldra um stöðu barnsins og vera hreinskilinn um stöðu barnsins í íslensku miðað við jafnaldra. Hafa ber í huga ílag barns í hverju tungumáli fyrir sig. Þannig ætti barn sem eyðir um helmingi vökutímans í íslensku málumhverfi og hinum helmingi vökutímans á erlendu móðurmáli að hafa svipaða færni í báðum tungumálum.

Þessi matslisti getur gagnast starfsfólki leikskóla til þess að átta sig á skiljanleika barns á tungumálum heimilis. Þegar hvorugt foreldri talar íslensku er gagnlegt að leikskólastarfsfólk fari yfir listann á íslensku og sýni foreldrum hversu skiljanlegt barnið sé á íslensku og útskýri með dæmum. Ef barnið er afgerandi sterkara á tungumáli heimilis er ástæðulaust að kalla til sérfræðing en áfram þarf að fylgjast með því að barnið taki framförum. En komi á daginn að foreldrar hafa einnig áhyggjur er mikilvægt að óska strax eftir mati talmeinafræðings á stöðu barnsins. ISC listarnir nýtast þá til rökstuðnings.

Dæmi: Barn sem talar filippísku og ensku á heimili en íslensku á leikskóla.
-ISC á filippísku (foreldri sem talar filippísku)
-ISC á ensku (foreldri sem talar ensku)
-ISC á íslensku (leikskólakennari fyllir út það sem við á til þess að hægt sé að eiga samtalið við foreldrana), sjá leiðbeiningar um marktækni einstakra matsþátta.

Hér eru leiðbeiningar um notkun listans. 

Hér má finna listann á 65 tungumálum og sífellt bætist við.