Lýsing

Fengið af vefnum Allir með

allirmedI.
Kennari byrjar á því að búa til orðalista yfir erfið orð í bókinni eða menningarlegar vísanir sem líklegt er að fari fyrir ofan garð og neðan hjá einhverju barnanna. Hann getur byrjað á því að skoða bókina með börnunum og leita svara við eftirfarandi spurningum:
· Hver skrifaði bókina?
· Frá hvaða landi kemur hún?
· Á hvaða tungumáli er bókin skrifuð upphaflega?
· Hver íslenskaði bókina?
· Hefur einhver lesið hana áður?
· Um hvað er hún?
· Þekkja börnin aðrar sögur sem líkjast þessari sögu?

Gott getur verið að fletta í gegnum bókina og skoða myndirnar með það í huga að renna yfir söguna. Í gegnum þetta upphafsferli sem kallað er forlesning eru börnin að heyra um sömu hlutina aftur og aftur og þá með orðfæri barna á sínu reki sem hafa fullt vald á málinu. Undirbúning af þessu tagi er hægt að vinna með einu barni, t.d. í fataklefanum, þegar það er borðþjónn, í göngutúr eða öðrum aðstæðum þar sem gefst tækifæri til að spjalla.

II.
Þá hefst sagan og þá fer sjálfur lesturinn eða söguflutningurinn fram. Nauðsynlegt er að kennari þekki söguna vel og viti  um hvað hún fjallar. Mikilvægt er að gera sögulesturinn eins sjónrænan og hægt er því þannig læra börn sem eiga í erfiðleikum með að skilja þegar lesið er fyrir þau. Kennari getur sagt/lesið söguna:
· með því að teikna hana upp á tússtöflu
· með leikrænum tilburðum
· með hjálp handbrúða
· með því að fá börnin til að taka þátt
· með því að framkalla hljóð (hljóðsögu)
· með loðtöflusögum.
· með persónubrúðum.

III.
Þriðji og síðasti þátturinn í ferlinu fer fram að lestri loknum en þá er unnið með söguefnið með því að ræða við börnin. Mikilvægt er að spyrja ólíkra spurninga úr sögunni, ekki bara efnislegra spurninga.
· Af hverju gerði hann þetta?
· Hvernig hefði þér liðið?
· Vildir þú frekar vera góði eða vondi maðurinn?
· Hvað hefðir þú gert ef þú hefðir lent í þessum aðstæðum?
· Hefur einhver lent í svipuðum vandamálum?

Upp úr sögunni er síðan hægt að vinna teikningar, leikrit, sögur, brúðuleikrit, yfirfæra hana í frjálsan leik eða hvað annað sem kennaranum eða börnunum kemur í hug. Í bókinni Reading, Writing, & Learning in ESL er fjallað nánar um þrískipt lestrarferli.