1. Til foreldra

Þessi vefur er unninn upp úr leikskólanámskeiði sem haldið var í Íslenskuskólanum á netinu fyrir þó nokkrum árum.  Námskeiðið sóttu íslensk börn á leikskólaaldri ásamt foreldrum sínum.  Þátttakendur voru allir búsettir erlendis.


Viðfangsefnin á námskeiðinu eru sett upp í fimm flokkum (málrækt, hreyfing, myndsköpun, tónlist og umhverfið og ég).  Í framantöldum flokkum er hægt að fá hugmyndir og velja úr viðfangsefni fyrir barnið.

Fyrir lítil börn er ekki æskilegt að dvelja langtímum saman fyrir framan tölvuskjáinn og er því þó nokkuð af efninu byggt upp sem verkefni og leikur án notkunar tölvu.

Gagnvirku verkefnin (t.d. flettisögur og minnisleiki) er skemmtilegt að skoða og vinna saman. Upplagt getur verið að spila íslensk barnalög í tölvunni.

Hlutverk foreldra

Á þessu námskeiði eru foreldra hinir eiginlegu kennarar. Það er því hlutverk foreldra að vega og meta hvað hentar barninu sínu best.
Hafið í huga að:

  • Foreldrar þekkja börnin sín best og alltaf skal vinna út frá áhuga og getu hvers einstaklings.
  • Best er að eiga sameiginlega heimaskólastund þegar rólegt er og allir eru vel upplagðir.
  • Gott er að byrja rólega á viðfangsefnunum og án mikilla væntinga.
  • Betra er að hætta fljótt og byrja aftur seinna í stað þess að setja pressu á barnið.
  • Það getur verið feikinóg að vinna 2-3 verkefni í hverri viku.
    5-20 mínútna vinna getur verið mátuleg.
    Endurtekning getur einnig verið af hinu góða.
  • Jákvæðni, leikur og hófleg umbun (t.d. í orði) eru hvetjandi.

Tengt efni


Birna Jóna Jóhannsdóttir og Þorbjörg Þorsteinsdóttir sáu um uppsetningu og umsjón með leikskólanámskeiðinu í Íslenskuskólanum.  Allar ábendingar um inntak og útfærslu þessa vefs eru vel þegnar.