Á Menningarmóti Norðlingaskóla í október sl. voru nokkrir gestir á sviði kennslu og barnamenningar boðnir að koma í heimsókn. Elfa Lilja Gísladóttir var meðal þeirra og hafði eftirfarandi að segja um sína upplifun:
Menningarmót í Norðlingaskóla 19.10 2016:
Ég var svo heppin að verða boðin í morgun í heimsókn í Norðlingaskóla þar sem fram fór Menningarmót.
Þessi heimsókn er enn sterk í huga mér þótt komið sé undir miðnætti. Öll börn skólans voru búin að koma sér fyrir rúmlega 8.30 með hluti sem tengja þau við sjálfið.
Hvert og eitt þeirra hefur val fyrir hvað það stendur og stóðu þau öll sem einn stolt og reif og kynntu sig og áherslur sínar og áhugamál.
Þarna mátti sjá fótbolta, körfubolta og handboltaskó og treyjur, fimleika og ballettbúning, skylmingaoutfit, reiðföt og reiðtygi, íshokký, karate, júdó og þá er óupptalið allt sem ekki tengist hreyfingu, útivist og íþróttum.
Mér er minnistæð ljóðabók sem afi (bóndi í Hrútafirði) skrifaði fyrir og um barnabarnið, fjölskyldumyndir, útskriftarbók frá leikskólanum og ein unglingsstúlkan hélt á litilli systur (kornabarni) og sagði það uppáhaldið sitt. Mörg þeirra voru að læra á hljóðfæri og var ein stúlkan með píanóbók frá ömmu sinni Dozen a day 3 hefti sem allir píanónemendur á mínum aldri börðust í gegnum.
En líklega er það eftirminnilegast hvað börnin voru ánægð og upprifin en á sama tíma var ró og afslappað andrúmsloft ríkjandi.
Það er ekki nokkur vafi að þetta þurfa öll börn, og þá meina ég öll börn, að fá að upplifa. Hver er ég, hvað gerir mig að mér, má ég vera aðeins annar en hinn og hvernig líður mér með það? Hvað er það sem ég vil standa fyrir og kynna við fyrstu kynni og jafnvel fyrir ókunnugum en á sama tíma að átta mig á því hvað er mitt privat sem ekki allir þurfa að vita? Hér er það ákvörðun og hún þarf að vera meðvituð hverjum einstaklingi og hvernig hann vill koma fram.
Það var nokkur munur á aldurshópum, yngri börnin tóku dótið sitt, allavega spila og myndaspjöld, bangsar, legó og myndir á meðan eldri börnin voru orðin skýrari með áhugamálin sín og völdu greinilega meira meðvitað hvað þau vildu sýna og standa fyrir.
Kennari sagði mér að þau hefði komist að ýmsu um nemendur sína i þessari vinnu og margir komið þeim verulega á óvart og sýnt á sér nýja hlið.
Þetta er veganesti sem þau taka með sér út í lífið.
Áfram Menningarmót – Menningarmót fyrir alla!
Elfa Lilja Gísladóttir
Tónlistarkennari og verkefnastjóri „List fyrir alla“, mennta – og menningarmálaráðuneytið