Erindi á starfsdegi


Fjölmenningarleg kennsla – hugmyndafræði, þróun og framkvæmd
– Guðrún Pétursdóttir, framkvæmdastjóri InterCultural Iceland

Farið verður stuttlega yfir þróun hugmyndafræðinnar að baki fjölmenningarlegrar kennslu í Evrópu og hvaða leiðir henta best til að nálgast markmið hennar. Einnig verður menningarhugtakið skoðað í víðu samhengi með stuttu samvinnuverkefni.


Menningarlegur margbreytileiki – fjölmenning
– Hallfríður Þórarinsdóttir, forstöðumaður MIRRU
Menningarlegur margbreytileiki – fjölmenning – er ný vídd í íslenskum veruleika hvort heldur í skóla, starfi eða á öðrum sviðum samfélagsins. Allt fram undir síðustu aldamót einkenndist íslenskt samfélag af menningarlegri einsleitni sem átti sér fáar hliðstæður í heiminum. Síðan hafa orðið gífurlegar og hraðar breytingar og nú er svo komið að áttundi hver íbúi landsins er innflytjandi. Innflytjendur koma hvaðanæfa að úr heiminum, aðhyllast margskonar trúarbrögð og sumir eru langt að komnir úr mjög ólíkri menningu. Fjöldi móðurmála, barna á leik- og grunnskólaaldri á Íslandi, skiptir tugum.

Í erindinu verða helstu einkenni þessara samfélagsbreytinga raktar. Greint verður frá aukningu innflytjenda, hvernig þessi margsleiti hópur er samsettur m.t.t. þjóðernis, trúarbragða, stéttarstöðu, kyns, aldurs, búsetu og fleiri þátta. Velt verður upp spurningum um hvaða áskoranir þetta nýja menningarlega „landslag“ felur í sér og hvaða leiðir eru heillavænlegar til að ýta undir gagnkvæma virðingu heimamanna og aðfluttra. Eru starfsmenn skóla og stofnana í stakk búnir til að takast á við þessar áskoranir? Er þjóðhverfur hugsunarháttur horfinn af sjónarsviðinu? Hvað með menningarlegan sans/næmni? Kallar menningarlegur margbreytileiki á takmarkalaust umburðarlyndi fyrir öllum menningarlegum mismun? Í erindinu verða áleitnar spurningar á borð við þessar jafnframt reifaðar og leitast við að virkja þátttakendur í málefnaleg skoðanaskipti og umræður.


Mál, læsi, menning og samfélag
– Rannveig Oddsdóttir, kennari á Menntavísindasviði HÍ

Í inngangsfyrirlestri verður fjallað um eftirfarandi atriði:

  • Tengsl máls og læsis, hvernig mál er ein helsta undirstaða læsis og þá ekki síst lesskilnings.
  • Hvernig mismunandi uppeldisaðstæður hafa áhrif á máltöku og þar með þann grunn sem börn hafa til að byggja á þegar kemur að því að læra lestur (og í raun flestar aðrar námsgreinar í skóla).
  • Tengsl lestrar og læsis við samfélagið og menninguna. Hvernig lestur og læsi er hluti af menningunni sem getur verið ólík milli stétta og landa, sem aftur getur leitt af sér missterkar undirstöður hjá börnum til að byggja á í lestrarnámi og allri skólagöngu.
  • Hvernig lestur, nám og kennsla í skólum tekur mið af menningu samfélagsins og hvernig þekking á þeirri menningu er ekki síður en orðaforði og málskilningur mikilvæg fyrir lesskilning (snýst t.d. um það að þekkja til þess sem fjallað er um í bókmenntum og geta skilið vísanir út fyrir textann, þar sem gert er ráð fyrir að lesandinn hafi ákveðna almenna þekkingu til að byggja á).

Í hópavinnu verður unnið út frá eftirfarandi atriðum:

  • Hvað getum við gert betur? Hvernig getum við nýtt auð hvers einstaklings og barnahópsins inn í kennsluna?
  • Hvernig má bæta/jafna aðstæður barna og nýta betur það sem þau koma með í farteskinu inn í nám þeirra?
  • Lesefni sem er lagt fyrir börnin skoðað
  • Hugmyndavinna um það hvernig flétta má meiri málörvun inn í byrjendalæsiskennsluna (s.s. orðaforðakennslu og vinnu með málskilning).


Eflum samræðufærni
– Brynhildur Sigurðardóttir, aðstoðarskólastjóri Garðaskóla

Fjallað verður um einfaldar leiðir til að koma samræðu af stað, hvernig hægt er að meta samræðufærni og af hverju heimspekilegar spurningar nýtast einkar vel til að þjálfa gagnrýna hugsun og samræðufærni. Eftir stutt inngangserindi verða þátttakendur virkjaðir í verkefnavinnu og umræður um samræðu sem kennsluaðferð.


Að blómstra í starfi – okkar ábyrgð
– Guðrún Snorradóttir og Ragnheiður Stefánsdóttir, frá mannauðsdeild Skóla- og frístundasviðs

Á fyrirlestrinum munu þátttakendur fá tækifæri til að ígrunda starf sitt og fá „verkfæri“ til að taka enn meiri ábyrgð á eigin líðan og viðhorfum í vinnuumhverfinu. Einblínt verður á styrkleika hvers og eins og sjónum beint að þeim mannauði sem býr í hópnum.


Leikur að bókum
– Birte Harksen og Ingibjörg Ásdís Sveinsdóttir frá leikskólanum Urðarhóli
Í fyrirlestrinum “Leikur að bókum” kynna Imma og Birte áþreifanleg dæmi um hvernig nota má ferskar og einfaldar aðferðir til að vinna með barnabækur í leikskólastarfinu. Markmiðið er að gera bækurnar lifandi fyrir börnunum og leysa úr læðingi sköpunarkraft og ímyndurafl þeirra – og gera þau að virkum þátttakendum í ferli þar sem leikur, leiklist, hreyfing og tónlist eru mikilvægir þættir í því að láta söguna njóta sín til fulls. Skoðið líka vefsíðuna leikuradbokum.net til að sjá fleiri dæmi!


Teymisvinna í skólastarfi
– Árný Inga Pálsdóttir, skólastjóri Kelduskóla

Kynnt verður verkáætlun sem er ætlað að styrkja samstarf teyma.
Gott samstarf í teymum er forsenda þess að teymið nái árangri og er lykilinn að árangri nemanda. Að þróa áfram faglegt samstarf krefst þess að allir í teyminu leggi sig fram í vinnu og leitist við að sjá styrkleika allra þátttakenda í teyminu. Markmið teymisins þurfa að vera skýr og teymið þarf að komast að samkomulagi um hvaða leiðir það nýtir til þess að ná markmiðunum.


Að velja sér viðhorf
– Eyþór Eðvarðsson, stjórnendaþjálfari og ráðgjafi hjá Þekkingarmiðlun

Fátt ræður eins miklu um árangurinn eins og með hvaða viðhorfi við nálgumst verkefnin. Aðalatriðið er að við getum valið um hvernig við viljum horfa á hlutina. Við getum aðlagað viðhorfið, skipt um það, eða látið það tilviljun eftir. Heilu fræðigreinarnar eru byggðar upp á því hvernig við vinnum með viðhorf okkar. Hugsun okkar, tilfinningar og hegðun stjórnast af viðhorfinu og viðhorfið stjórnast af hugsun, tilfinningu og hegðuninni. Í þessum 30 mínútna fyrirlestri verður farið ofan í saumana á þessu heillandi viðfangsefni sem allir geta bætt sig í.


Rafræn skráning