BINGÓ – unnið með tölur frá 1-100

BingóspjöldÍ þessari viku tókum við fyrir tölur. Tímann í gær notuðum við til að klippa út og búa til bingóspjöld úr morgunkornspökkum. Úti var sól og hiti og krökkunum langaði út en við náðum samt að klára spjöldin. Satt að segja hélt ég að þetta myndi ekki ganga upp hjá okkur því þau voru svo óþolinmóð. Bingóspjöld urðu að skutlum sem flugu um kennslustofuna. Þvílíkur dagur og það reyndi heldur betur á þolinmæðina hjá kennaranum ! Sama veðurblíðan var í dag svo að við fórum út á skólalóð og spiluðum bingó. Það gekk frábærlega vel og við áttum saman skemmtilegan íslenskutíma þar sem leikgleðin og keppnisskapið fékk að njóta sín.

Einn morgunkornspakki dugar fyrir 2 bingóspjöld. Ég byrjaði á að búa til fyrir þau spjald svo þau vissu hvernig þau áttu að gera. Í dálkinn undir B koma tölur frá 1-20. I tölur frá 21-40. N tölur frá 41-60 og O tölur frá 61-100. Þau velja sjálf tölurnar sem þau skrifa inn á spjaldið en þær verða að vera á talnabilinu hér að ofan. Spjöldin mega ekki vera eins því ef að svo er þá er enginn einn sem vinnur spilið. Þegar þetta var búið þá er búnar til tölur frá 1-100 sem er settar í box og svo er einhver sem dregur tölu og les upp t.d. B5, I34 o.s.frv. Svo verða að vera til „hnappar“ til að leggja yfir tölurnar á spjaldinu sem eru lesnar upp. Við vorum svo heppin að það voru til „hnappar“ í kennslustofunni og við gátum notað þá.

Það hefur verið að koma mér mjög á óvart hvað krakkarnir hafa verið áhugasöm við að lesa á íslensku. Við höfum líka verið að æfa íslenskt r hjóð  sem er mjög ólíkt norsku r sem verður til einhvers staðar í hálsinum. Nú kunna allir að segja errrrrr á íslensku. Ótrúlega flott. Ég hef verið að sjá miklar framfarir hjá þeim öllum á þessum örstutta tíma.

Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.