Spurt að leikslokum fyrir 7-12 ára

Ég kenni ekki lengur íslensku í barnaskólanum en engu að síður held ég áfram að kenna Benedikt Leó, 10 ára gömlum syni mínum, móðurmálið heima. Hugurinn er stöðugt að leita eftir nýjum verkefnum svo ég ákvað að byrja aftur með bloggfærslurnar mínar. Við höfum búið í Noregi á þriðja ár og strákurinn minn hefur náð góðum tökum norsku og er stöðugt að bæta við sig orðum. Við tölum íslensku heima en það er orðið algengt að eitt og eitt norskt orð komi með þegar hann talar á íslensku. Venjulega eru það orð sem hann þekkir ekki eða hefur lítið notað á móðurmálinu. Stundum þýðir hann norsk orð yfir á íslensku til dæmis norska orðið solnedgang íslenskaði hann sem sólarniðurgangur en ekki sólarlag.

Stærsta hindrunin við að kenna heima er að litli maðurinn hefur engan skilning á mikilvægi íslenskunáms og hefur engan áhuga á að bæta við sig skólaverkefnum. Flestar tillögur mínar um að vinna verkefni á íslensku hafa mætt mótstöðu af hans hálfu. Ég tók þá ákvörðun að samtvinna námið við daglega lífið svo hann veit ekki að því sjálfur að nám er að fara fram. Þetta geri ég til dæmis með leikjum. Undanfarið höfum við spilað spil sem heitir Spurt af leikslokum fyrir 7-12 ára og það finnst honum mjög skemmtilegt. Spilið inniheldur tvenns konar spjöld annað með spurningum og hitt með táknum. Hvert tákn stendur fyrir ákveðinn flokk spurninga til dæmis stendur blár ferningur fyrir flokkinn; land, þjóð, tunga. Leikmaður velur sér flokk og fær spurningu í samræmi við hann. Tilgangurinn er að fá Benedikt Leó til að lesa meira á íslensku og það hefur tekist svo þessu spili hefur verið tekið fagnandi hér á heimilinu.

Við vorum svo heppin að Stekkjarstaur gaf honum í skóinn útgáfu af sama spili sem heitir Spurt að leikslokum, úr öllum áttum. Sú útgáfa er að vísu með þyngri spurningar og hentar betur eldri krökkum.

Þessi færsla var birt undir Óflokkað. Bókamerkja beinan tengil.