Myndefni – bréf til foreldra

Eftirfarandi er dæmi um bréf sem sent var til foreldra í tengslum við myndbirtingar.

Kæru foreldrar

Ég hef í vetur kennt krökkunum í 5-HK ensku og haft mikið gaman af en sá bekkur samanstendur af alveg frábærum krökkum sem hafa verið sérlega jákvæð og áhugasöm í enskunni.

Undanfarin ár hef ég verið að þróa leiðir til að kenna ungum nemendum bókalaust og styðst ég þá við þemu og ýmis fjölbreytt verkefni í tengslum við það. Í tengslum við þá vinnu hef ég verið beðin um að setja fræðslu um þessa aðferð á vefinn www.tungumalatorg.is en það er síða þar sem kennarar geta fengið upplýsingar, hugmyndir og verkefni frá öðrum kennurum. Með þessari fræðslu langar mig að hafa myndir en í vetur hef ég myndað krakkana ykkar í ýmsum verkefnum. Hér fyrir neðan eru dæmi um þær myndir sem ég myndi vilja fá að nota. Um er að ræða eingöngu myndir af krökkunum við vinnu eða að sýna verkefnin sín.

Eins tók ég upp myndband af kynningum þeirra sem gæti verið að gaman að klippa til og setja á vefinn en þá yrði eingöngu vel valin atriði sýnd.

Mig langar með þessu bréfi að fá leyfi frá ykkur til að nýta þessar myndir á þessum vettvangi sem tungumálavefurinn er. Ég óska eftir því að þeir sem ekki kæri sig um að myndirnar fari á vefinn láti mig vita og ég mun að sjálfsögðu taka tillit til þess. Ég óska ykkur öllum gleðilegs sumars,
Björg

Á þennan hátt er foreldrum gefinn kostur á að koma með athugasemdir.
Til að tryggja birtinguna er jafnframt æskilegt að fá formlegt leyfi frá öllum.