„Menningarmót – Fljúgandi teppi“ er nýr vefur sem hýstur er á Tungumálatorginu.
Vefinn má finna á léninu menningarmot.is og það er Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kennari og verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu, sem er hugmyndasmiður verkefnisins. Hún hefur notað menningarmótin í kennslu síðan 2008 með góðum árangri og aðstoðað við innleiðingu þeirra í fjölmörgum skólum í Reykjavík.
Menningarmót er þverfagleg aðferð í starfi með börnum og fullorðnum þar sem leitast er við að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima hvers og eins.
Menningarmót má útfæra með mörgum námsgreinum og námssviðum og oft tengjast þau vinnu með sjálfsmynd barna í leikskólum, tónlistar-, íslensku- og leiklistarkennslu í grunnskólum, lífsleikni í grunn- og framhaldsskólum og íslensku sem öðru máli á fullorðinsstigi. Verkefnið hentar einnig vel í hagnýtri tungumálakennslu.
Meðal markmiða er að þátttakendur geri sér ljóst að fjölbreytt menning, áhugasvið og ólík tungumál mynda mikilvægt menningarlegt litróf í samfélaginu. Mótsgestir veita öðrum hlutdeild í þeirri gleði og stolti sem fylgir því að miðla eigin menningu og áhugamálum á skapandi hátt.
Margir skólar hafa gert verkefnið að föstum lið í fagstarfinu og fleiri virðast hafa áhuga á að slást í hópinn. Því er löngu tímabært að gefa út á vef hagnýtar kennsluleiðbeiningar sem nýst geta á öllum skólastigum.
Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið sé á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – eitthvað sem varðar alla í samfélaginu, ekki einungis ákveðna hópa. Áhersla er lögð á áhugamál og menningu hvers og eins. Sú menning getur auðveldlega tengst landi og þjóð – en gerir það ekki endilega. Heimasíðan menningarmot.is mun varðveita þessi gildi.