Menningarmót í Veröld 2024

Menningarmót í Veröld

(Frétt af rvk.is)

Það var kátt á hjalla á Menningarmóti 6. bekkinga Hlíðaskóla í tilefni Alþjóðlega móðurmálsdagsins í síðustu viku. Börnin í árganginum eru sannarlega fjöltyngd og eru þrjú táknmál meðal þeirra 20 tungumála sem þau tala. Viðburðurinn er á vegum Vigdísarstofnunar og Tungumálamiðstöðvar Háskóla Íslands.

Tungumál eru oft falinn fjársjóður

Á Alþjóðadegi móðurmálsins sem var þann 21. febrúar unnu börnin fjölbreytt verkefni tengd tungumálum og fengu leiðsögn um sýninguna Mál í mótun í Veröld húsi Vigdísar. Einn af hápunktunum var gerð tungumálaregnboga, listaverks sem hengt var upp í stiga Veraldar. Listaverkið sýnir orð eins og “vinur”, “ást”, “friður” og “umburðarlyndi” á þeim 20 tungumálum sem hefur afhjúpast meðal barnanna gegnum verkefnið. Tungumál eru oft falinn fjársjóður í samfélaginu sem gott er að minna á.

Skapandi sjálfsmyndir og ljósi varpað á styrkleika

Það var svo á föstudaginn sem foreldrum barnanna var boðið á Menningarmót í Veröld og sjá það sem börnin hafa verið að gera til að kynna sína persónulegu menningu á skemmtilegan hátt. Um er að ræða kennsluaðferð sem Kristín R. Vilhjálmsdóttir, tungumálamiðlari í Danmörku og á Íslandi vinnur með skólum menningarstofunum og tungumálafólki til að vinna skapandi sjálfsmyndir og varpa ljósi á styrkleika og fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn nemenda.

Menningarmót í Veröld

Styður við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Menningarmót  styður við menntastefnu Reykjavíkurborgar, greinar aðalnámskrár um fjöltyngi og menningarnæmi og færni og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um alheimsvitund og viðurkenningu á fjölbreyttri menningu. Alþjóðlegi móðurmálsdagurinn er einn af þeim Unesco dögum sem Vigdísarstofnun hefur halt í heiðri til margra ára og hefur hann síðustu ári verið tileinkaður börnum og í nánu samstarfi við Móðurmál – samtök um tvítyngi.

Fjallað var um Menningarmótið í fréttum RÚV og í Morgunblaðinu