Viljið þið koma í hóp Menningarmótsskóla?

Á Alþjóðadegi menningarlegrar fjölbreytni, 21. maí ár hvert, verður tilkynnt hvaða skólar séu orðnir formlegir Menningarmótsskólar.

Verkefnið Menningarmót – fljúgandi teppi hefur verið innleitt í fjölmörgum leik -, grunn – og framhaldsskólum í Reykjavík á vegum Borgabókasafns Reykjavíkur frá árinu 2008.  Menningarmót er þverfagleg aðferð í starfi með börnum og fullorðnum þar sem leitast er við að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima hvers og eins. Meðal markmiða er að þátttakendur geri sér ljóst að fjölbreytt menning, áhugasvið og ólík tungumál mynda mikilvægt menningarlegt litróf í samfélaginu öllu. Þátttakendur veita öðrum hlutdeild í þeirri gleði og stolti sem fylgir því að miðla áhugamálum sínum og menningu á skapandi hátt. Verkefnið býður uppá gagnvirkt samstarf við foreldra sem fjölmenna á Menningarmótin og eru ávallt mjög áhugasamir og virkir þátttakendur með börnum sínum. Hér á vefnum má finna margvíslegar upplýsingar um hvernig nota má Menningarmótin í  kennslu og skólastarfi allt frá leikskóla til fullorðinsfræðslu.

Verkefnið Menningarmótsskólar og vefurinn www.menningarmot.is byggir á samstarfi  Borgarbókasafns og skóla – og frístundasviðs Reykjavíkur og samræmist stefnu borgarinnar um fjölmenningarlegt skólastarf.

Hvernig verður skóli Menningarmótsskóli?

  1. Verkefnisstjóri og höfundur Menningarmótsins, Kristín R. Vilhjálmsdóttir, kynnir verkefnið og heimasíðu þess fyrir öllu starfsfólki skólans.
  1. Verkefnisstjóri Menningarmótsins leiðbeinir einu sinni til tvisvar við framkvæmd verkefnisins í skólanum. Að því búnu er valinn lykilstarfsmaður til að bera ábyrgð á verkefninu innan skólans. Gott er að starfsmenn skólans í sameiningu velji þann árgang eða þann leikskólahóp sem setur upp Menningarmótið hverju sinni.
  1. Lykilstarfsmaður heldur utan um Menningarmót í skólanum með því að vísa samstarfsmönnum á heimasíðu Menningarmóta og leiðbeinir sjálfur ef þörf er á. Lykilstarfsmaður varðveitir efni og kemur upp “reynslubanka” í tengslum við verkefnið til notkunar í framtíðinni og minnir þá árganga sem skólinn hefur valið, á að halda Menningarmót.
  1. Skólastjóri eða lykilstarfsmaður upplýsir verkefnisstjóra Menningarmótsins um þróun verkefnisins innan skólans.
  1. Skólinn setur merki Menningarmóta á heimasíðu sína þar sem er vísað á slóðina www.menningarmot.is. Þá er einnig vísað í heimasíðu verkefnisins í fréttum og umfjöllun um Menningarmót á vef verkefnisins.

Áhugasamir hafi samband við verkefnastjóra fjölmenningar hjá Borgarbókasafninu:

kristin.r.vilhjalmsdottir@reykjavik.is

4116122/6181420