Menningarmót – fljúgandi teppi fær Evrópumerkið 2017

Verkefnið Menningarmót – Fljúgandi teppi sem Kristín R. Vilhjálmsdóttir, verkefnisstjóri hjá Borgarbókasafninu, stýrir fær Evrópumerkið, European Label í ár, en það er viðurkenningu fyrir nýbreytni í tungumálanámi og tungumálakennslu. Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og mennta- og menningarmálaráðuneytið veita Evrópumerkið. Verðlaunin voru afhent við hátíðlega athöfn í Hörpu miðvikudaginn 8. nóvember.

Evrópumerkið er veitt hér á landi annað hvert ár, en í allflestum löndum Evrópusambandsins árlega. Evrópumerkið setur sér forgangsatriðið á hverju ári fyrir 2017 var það „Að leggja rækt við tungumál í samfélaginu“ (Language-friendly society – informal language learning) og passar vinningsverkefnið fullkomlega við það forgangsatriði.

Markmið verkefnisins Menningarmót – Fljúgandi teppi er bæði metnaðarfullt og fjölþætt og nær til breiðs hóps; nemenda, kennara og foreldra á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Menningarmótin miða að því að virkja nemendur og varpa ljósi á styrkleika, fjölbreytta tungumálaþekkingu og menningu þeirra.

Á menningarmótum kynna þátttakendur sína menningu, ekki endilega þjóðmenningu eða upprunamenningu einstaklinga heldur er markmiðið að hver og einn varpi ljósi á það sem skiptir hann mestu máli eða vekur áhuga hans. Þegar skólinn er búinn að fá kynningu á verkefninu er um er að ræða kennsluferli í þremur þrepum:

1. Kynning á verkefninu með þátttöku nemenda
2. Vinna með menningu og miðlunarleiðir í skólanum á forsendum nemenda
3. Menningarmót: foreldrum og öðrum nemendum er boðið að fá innsýn í fjölbreytta menningarheima og áhugamál þátttakenda

Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið er á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – nokkuð sem varðar alla í samfélaginu, ekki einungis ákveðna hópa. Ávinningurinn er einkum sá að þegar skólar vinna markvisst að því að hafa tungumál og fjölbreytta menningu sýnilega í skólastarfinu skapast tækifæri fyrir alla nemendur og starfsfólk til að auka fjölmenningarlega færni sína. Það eykur sjálfstraust fjöltyngdra nemenda þegar stuðlað er að jákvæðari sýn á hæfileikann til að nota og tjá sig á ólíkum tungumálum.

Verkefnið hefur þegar verið kynnt erlendis og meðal annars yfirfært til Danmörku með góðum árangri.

Í umsögn dómnefndar segir: Ljóst er að hér er um afar metnaðarfullt verkefni að ræða þar sem leitast er við að efla sjálfsvitund fjöltyngdra barna. Verkefnið er því fyrirmyndarverkefni og uppfyllir vel þær kröfur sem gerðar eru til viðurkenningar Evrópumerkisins 2017.

Dómnefnd Evrópumerkisins 2017 skipuðu Eyjólfur Már Sigurðsson, tilnefndur af Hugvísindasviði HÍ og formaður nefndarinnar, Þórhildur Oddsdóttir, tilnefnd af Samtökum tungumálakennara á Íslandi, og Michael Dal, tilnefndur af Menntavísindasviði HÍ.

Hér er myndband sem var gert um verkefnið í tilefni viðurkenningarinnar: