Menningarmót á Íslandi í áratug

Líkt og mörg verkefni Borgarbókasafnsins sem tengjast fjölmenningarstarfi fagnar verkefnið Menningarmót – Fljúgandi teppi tíu ára afmæli í ár. Verkefnið gengur út á það að varpa ljósi á styrkleika og fjölbreytta menningarheima þátttakenda og eiga mótin í flestum tilfellum heima í kennslustofum í leik-, grunn- og framhaldsskólum í borginni. Þá fá þátttakendur tækifæri til að hittast og kynna sína persónulegu menningu í hvetjandi umhverfi.

Lykilatriði við útfærslu Menningarmóts er að litið sé á hugtakið fjölmenningu í víðum skilningi – eitthvað sem varðar alla í samfélaginu, ekki einungis ákveðna hópa. Ekki er endilega um að ræða þjóðarmenningu eða upprunamenningu einstaklinga heldur er markmiðið að hver og einn varpi ljósi á það sem skiptir hann mestu máli eða vekur áhuga hans.

Hugmyndin fæddist í Danmörku

Kristín R. Vilhjálmsdóttir, sem er kennari og verkefnastjóri fjölmenningar hjá Borgarbókasafni, er hugmyndasmiður verkefnisins sem varð til í kennslustofu hennar  í Danmörku árið 2000. Kristín hefur notað Menningarmótin með góðum árangri í kennslu á Íslandi síðan 2008 og leiðbeint við að innleiða verkefnið í fjölmörgum skólum í Reykjavík á vegum Borgarbókasafns.

Allir geta mæst í tónlist, dansi, myndlist, bókmenntum, kvikmyndum, matargerð, ævintýrum og goðsögnum, frásagnarlist, leiklist, leik og hreyfingu. Menningarmótin skapa vettvang þar sem þátttakendur geta undrast og hrifist af því, sem er líkt og ólíkt í menningu þeirra og áhugamálum.

Verkefnið hlaut „Evrópumerkið“ árið 2017.

Saga fjölmenningarstarfsins

Árið 2008 var Kristín R. Vilhjálmsdóttir ráðin sem verkefnastjóri fjölmenningar á Borgarbókasafninu til að skapa samtal í fjölbreyttu landslagi tungumála og menningar. Síðan þá hefur Borgarbókasafnið sem stærsta menningarstofnun Reykjavíkurborgar verið í fararbroddi á sviði fjölmenningar með umfangsmiklu tengslaneti og með því að skapa samræður og að sameina íbúa í Reykjavík í gegnum listir, tungumál og menningu. Starfið hefur hlotið ýmsar viðurkenningar eins og til dæmis tvær tilnefningar til Samfélagsverðlauna Fréttblaðsins. Það hefur vakið áhuga víða um Ísland, á hinum Norðurlöndunum, í Kanada, Tékklandi og Belgíu svo dæmi séu nefnd.

Haldið verður upp á liðinn áratug á ráðstefnunni Rætur og vængir í Veröld – húsi Vigdísar dagana 24. og 25. maí næstkomandi.

Sjá nánar á vefsíðu Borgarbókasafnsins www.borgarbokasafn.is