Tónlist, tungumál, töffarar og töfrar!

Menningarmótið2Það er hægt að nota Menningarmótsaðferðina á ýmsan hátt. Í vor héldu nemendur í Hagaskóla flott Menningarmót í Borgarbókasafninu í Grófinni, þar sem fjöltyngdir nemendur voru „lifandi tungumál“, kynntu menningu sína, tungumál og áhugamál. Unglingarnir sungu og lásu ljóð á ýmsum tungumálum, spiluðu ljúfa tóna og svöruðu spurningum um það sem skiptir máli í þeirra lífi. Mikill og vandaður undirbúningur kennara og nemenda átti sér stað áður en að Menningarmótið var haldið. Hugmyndin með að nota aðferðina á þennan hátt miðar að því að vekja áhuga barna og ungmenna á tungumálum með því að virkja þann fjársjóð sem felst í tungumálaforða tví – og fjöltyngdra barna. Hér er bæði um að ræða börn sem eru með annað móðurmál en íslensku og íslensk börn sem hafa búið erlendis og koma tilbaka með ný tungumál í farangrinum og innsýn í ýmsa menningarheima.

Með því að beina athyglin á tungumálaforða nemenda og nýta reynsluheim og heimsreynslu þeirra í kennslu er hugsunin að reyna að kveikja forvitni og löngun til að læra tungumál. Innsýn í mismunandi menningarheima eykur möguleika barna til að þjálfa næmi sitt og skilning fyrir fjölbreyttum tungumálum og til að tileinka sér fjölmenningarfærni. Á sama tíma er verið að stuðla að jákvæðri sjálfsmynd þeirra sem kunna fleiri en eitt tungumál og sem eru sumir enn byrjendur í íslensku. Það getur gefið manni blik í augun og haft jákvæða og valdeflandi áhrif á sjálfsmyndina, og þarmeð námsferlið, að kunna eitthvað alveg sérstakt – eins og til dæmis tungumál.

Sjá nánar um notkun Menningarmótsins í sambandi við að virkja fjöltyngi nemenda hér og leiðbeiningar um framkvæmd verkefnisins hér.

Á myndbandinu má upplifa stemninguna á Menningarmótinu: