6+1 Trait, PALS, SIOP og fleira…
Þátttakendur fá þjálfun í leiðum (best practices) sem góðar þykja í námi og kennslu annars tungumáls og eru notaðar víða. Um er að ræða 6+1 Trait, PALS (Peer-Assisted Learning Strategies) og SIOP (The Sheltered Instruction Observation Protocol).
Þátttakendur fá einnig þjálfun í millimenningarfærni, stöðvavinnu og fjölbreyttum lestrarleiðum ásamt fræðslu um móttöku nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál, hvernig vinna megi að gagnkvæmu aðlögunarferli allra nemenda, starfendarannsóknir kennara o.fl. Bandarískir og íslenskir sérfæðingar sjá um þjálfunina.
Það sem einkennir þessar leiðir er m.a. að unnið er með nemendum sem læra íslensku sem annað tungumál inni í bekk en þeir ekki teknir út úr bekknum og kennt einum og sér. Tungumálið lærist þannig í gegnum virk og markviss samskipti nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál og þeirra sem eiga hana að móðurmáli. Þessi nálgun er í anda fjölmenningarlegra kennsluhátta sem ganga m.a. út á samvinnunám og mikilvægi jákvæðra, innihalds- og árangursríkra samskipta nemenda sem tilheyra mismunandi samfélagshópum.
Teymi á vettvangi
Í kjölfar þjálfunarinnar þróa teymi kennara á vettvangi skólanna áfram vinnu með PALS, SIOP, 6+1 Trait og stöðvavinnu. Teymin vinna fyrir opnum tjöldum til að upplýsa samkennara sína um verkefnið, enda ber teymunum að þjálfa þá í þessum vinnubrögðum, seinna þegar reynsla er komin á þau. Öll símenntun þessu tengd mun þá fara fram innan skólanna þar sem kollegar þjálfa kollega og miðla þekkingunni og færninni sem þeir tileinkuðu sér í smiðjum sem haldnar verða á næstu tveimur árum. Miðlun þekkingar innanhúss og þjálfun af þessu tagi á að tryggja að þekkingin á málefninu sé langlíf og víðtæk en ekki á höndum örfárra starfsmanna.
Nýbreytni
Nýbreytnin felst í því að kennarar fá þjálfun í verklagi og fá dágóðan tíma til að tileinka sér nýja færni og ný vinnubrögð í samvinnu við aðra kennara skólans. Það eru ekki aðeins kennarar sem hafa séð um að kenna nemendum íslensku sem annað tungumál sem fá þessa þjálfun, heldur fá umsjónarkennarar og greinakennarar hana líka. Umsjónar- og greinakennarar eru einmitt þeir sem hafa átt í mestum erfiðleikum þegar kemur að kennslu nemenda sem læra íslensku sem annað tungumál á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi. Ástæðan er í flestum tilfellum sú að umræddir kennarar einblína á fagið sem þeir eru að kenna og hafa ekki fengið þjálfun í að koma innihaldi námsbóka til skila til nemenda sem skilja tungumálið lítið sem ekkert. Kjarni verkefnisins felst m.a. í því í að gera sem flesta kennara meðvitaða um innihalds- og tungumálamarkmið námsgreina og að allir kennarar eru í raun íslenskukennarar.
Í Aðalnámskrá Íslenska, 2007 stendur:
Viðfangsefni íslenskukennslunnar eru samræmd og samhæfð öllum öðrum námsgreinum. Allir kennarar verða því íslenskukennarar og allir kennarar í íslensku sem öðru tungumáli stuðla að því að markmiðum annarra námsgreina verði náð. Markmiðin lúta því ekki eingöngu að íslenskukennslu, heldur tengjast þau þekkingar-, færni-, viðhorfa- og sköpunarmarkmiðum annarra námsgreina og skólastarfinu í heild.
Tilvitnunin hér að ofan kemur heim og saman við viðfangsefni SÍSL verkefnisins.