Margir þeirra sem sátu námskeið í PALS lestri í fyrrahaust hafa brotið um það heilann hvað skammstöfunin PALS geti staðið fyrir á íslensku. Á ensku stendur hún fyrir Peer-Assisted Learning Strategies. Í Grandaskóla var nálgunin kölluð FÉLAS eða Félagar Læra saman og Aðstoða hver annan, til þess nota þeir ákveðið Skipulag og í Ölduselsskóla var nálgunin kölluð Palla-lestur.
Á stuttu upprifjunarnámskeiði um PALS sem haldið var í Lágafellsskóla 28. apríl sl., stakk Sigrún Huld Auðunardóttir, sem er með umsjón með sérkennslu 8.-10. bekkjar, upp á að PALS gæti staðið fyrir Pör Að Læra Saman. Þetta er frábær hugmynd og á Sigrún Huld skilið hrós og þakkir fyrir að koma með lausnina.