Undir SÍSL verkefnið heyrir PALS (e. Peer-Assisted Learning Strategies), 6+1 Vídd ritunar (e. 6+1 Traits of Writing) og Greinabundin íslenskukennsla (e. Academic Vocabulary). Allt eru það hagnýtar og árangursríkar náms- og kennsluleiðir sem nýtast nemendum og kennurum í skóla margbreytileikans. Á þessu skólaári er boðið upp á námskeið í þessum leiðum. Skólar sem vilja halda námskeið af þessu tagi á sínum vettvangi eða kennarar sem hafa áhuga á að sækja námskeið sem haldin eru á vegum SÍSL, er bent á að hafa samband við Huldu Karen Daníelsdóttur verkefnastjóra SÍSL. Netfangið hennar er: hulda.karen.danielsdottir@reykjavik.is
SÍSL verkefnið hefur góðfúslega gefið skólaskrifstofu Mosfellsbæjar leyfi til að stýra og breiða út K-PALS námskeið fyrir leikskólakennara, enda fjármagnaði sveitarfélagið þýðingu K-PALS handbókarinnar. K-PALS námskeiðin eru engu að síður hluti af SÍSL verkefninu.
PALS
Á haustönn voru 8 PALS námskeið fyrir 290 kennara sem kenna nemendum í 2.-6. bekk haldin í grunnskólum víðs vegar um landið. Einnig var haldið í Reykjavík PALS námskeið fyrir kennara sem kenna 1. bekk og sóttu það 47 kennarar víða að af landinu.
Kennarar í Sjálandsskóla
PALS fyrir 1. bekk
Heiðveig Andrésdóttir og Elsa María Hallvarðsdóttir sem kenna á PALS námskeiðunum fyrir 1. bekk, þýddu K-PALS efnið og stóðu sig frábærlega á námskeiðinu sem haldið var 3. september í Reykjavík. Þær þekkja efnið mjög vel og hafa reynslu af því að kenna það í 1. bekk. Til stendur að halda annað námskeið í lok nóvember. Nánari upplýsingar um það verða birtar síðar.
Námskeið í PALS fyrir 1. bekk
Greinabundin íslenskukennslu
Námskeið í Greinabundinni íslenskukennslu (e. academic vocabulary) var haldið dagana 15. og 16. ágúst á vegum SÍSL verkefnisins í samstarfi við Ísbrú fagfélag kennara sem kenna íslensku sem annað tungumál og Endurmenntun Háskóla Íslands. Tæplega fjörutíu kennarar sóttu námskeiðið. Námskeiðið verður aftur í boði á vettvangi skóla sem panta það til sín og einnig stendur til að SÍSL í samstarfi við Ísbrú bjóði eftir áramót kennurum upp á slíkt námskeið sem haldið verður annars vegar í Reykjavík og hins vegar á Akureyri.
Kennarar á námskeiðinu
6+1 Vídd ritunar
Nú er verið að leggja lokahönd á handbók um 6+1 Vídd ritunar. Búist er við að hún fari í prentun í lok nóvember. Boðið verður upp á námskeið í Víddunum á þessu skólaári.