Mikilvægi orðaforða í enskri málnotkun

Guðmundur Edgarsson займ без процентов на карту мгновенно круглосуточно без отказа с плохой

Hve mikinn orðaforða þarf til að geta lesið texta sér til gagns og gamans á ensku?

Áður en ég svara þeirri spurningu þarf að huga að ýmsu.

Hvernig teljum við orð? Eru orðin book og books eitt eða tvö orð? Algengast er að nota mælieininguna orðafjölskyldu þegar meta á fjölda orða. Ein orðafjölskylda er grunnmynd orðsins og afleiddar myndir þess. Þannig tilheyra orðin intelligent, intelligently, intelligence, unintelligent öll sömu orðafjölskyldunni og teljast því sem eitt og sama orðið samkvæmt því hugtaki. Sama er að segja um book og books. Í þessari grein mun orð merkja orðafjölskyldu.

Einnig þurfum við að átta okkur á mikilvægi tíðni orða. Ef byrjandi í ensku ákveður að læra 3000 orð af handahófi, t.d. 1000 algeng orð, 1000 miðlungi algeng og 1000 sjaldgæf, nýtist of lítill hluti þeirra t.d. í lestri því mörg þeirra munu ekki sjást í textanum.

Ef hann hins vegar ákveður að læra 3000 algengustu orðin mun tíðni þeirra tryggja að flest þeirra munu sjást í textanum. Rannsóknir sýna nefnilega að 3000 algengustu orðin í ensku þekja um 90%  orða í texta ef sérnöfn (u.þ.b. 5%) eru talin með. 3000 algengustu orðin teljast til grunnorðaforða og dugar í hversdagslegum samræðum og til lágmarks lesskilnings á einföldum textum t.d. þeim sem finna má í léttlestrarbókum. Athugið að ef einstaklingur þekkir 90% orða í texta jafngildir það því að hann þekki ekki 10% þeirra svo að búast má við að í hverri línu sé eitt óþekkt orð (ca. 30-40 orð á blaðsíðu). Ljóst er að slíkur fjöldi nýrra orða hamlar skilningi á efninu.

Rannsóknir sýna að til að komast þokkalega áfram í lestri á fjölbreyttum, óeinfölduðum textum á ensku þarf að þekkja að lágmarki 5000 algengustu orðin sem þekja um 95% af hverjum meðaltexta (sérnöfn meðtalin). 95% af texta þýðir að 5% orðanna eru ný, sem aftur þýðir að nýtt orð kemur fyrir í annarri hvorri línu að meðaltali og hefur því verulega truflandi áhrif á lesturinn þótt unnt sé að skilja meginhugmyndir textans. Slíkur orðaforði dugar  hins vegar tæplega til magnlesturs eða yndislestrar nema valdir séu tiltölulega einfaldir textar, t.d. ástarsögur.

En hvað þarf þá að kunna mörg orð í ensku til að geta lesið óhindrað texta um alls kyns efni (t.d. Newsweek) og jafnframt tjáð sig skilmerkilega um ýmis flókin mál (t.d. Icesave)? Nýjustu rannsóknir sýna að til þess þurfi orðaforða uppá um 9000 orð. Slíkur orðaforði þekur að meðaltali um 98-99% af texta. Til samanburðar kann ungur maður sem hefur ensku að móðurmáli og hefur háskólamenntun að jafnaði 20.000 orð. Ætla má að Íslendingur með svipaðan bakgrunn kunni um 4000-7000 orð að meðaltali svo að talsvert marga vantar enn þó nokkuð upp á að ná 9000 orða markinu. Þeir sem hafa náð því eru yfirleitt miklir lestrarhestar sem jafnframt hafa mikinn áhuga á ensku.

Því er ljóst að leggja þarf mikla áherslu á kennslu orðaforða í skólakerfinu . Einnig þarf að tryggja að nemendur læri gagnlegar aðferðir við að læra orð af sjálfsdáðum auk ýmis konar minnistækni til að muna orðin til langframa. Mikilvægast er þó að lestur á ensku verði reglubundinn hluti af daglegu lífi svo að fleiri ný orð lærist en ekki síður að orðin festist betur í sessi við þá endurtekningu sem af magnlestri hlýst svo að þau verði manni töm.

Höfundur er málmenntafræðingur og kennir við Frumgreinamennt HR

Geinin birtist í Fréttatímanum helgina 27.-29. janúar 2012 og er birt á Tungumálatorgi með góðfúslegu leyfi höfundar.

This entry was posted in Uncategorized. Bookmark the permalink.