21. febrúar

21. febrúar

Fyrir rúmum áratug tók Menningarmálastofnun Sameinuðu Þjóðanna, UNESCO þá ákvörðun að alþjóðlegi móðurmálsdagurinn skyldi á hverju ári haldinn hátíðlegur þann 21. febrúar.

Íslenska UNESCO-nefndin og Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur í erlendum tungumálum hafa ákveðið að efna til nokkurra viðburða í vikunni 21.-28. febrúar 2014 í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins. Leitað hefur verið eftir samstarfi við fjölmarga aðila, m.a. Móðurmál – Félag tvítyngdra barna, Kennarasamband Íslands, Reykjavíkurborg og fleiri aðila, sem hafa látið sig þennan málaflokk varða.

Í vikunni verður vakin athygli á starfi fjölmargra aðila sem tengjast ólíkum móðurmálum, hvatt til umræðu í skólum um hvernig sé hægt að koma til móts við nemendur sem tala annað móðurmál en íslensku og myndböndum um efnið komið á framfæri. Upplýsingum verður safnað um þau fjölmörgu og ólíku tungumál sem byggja upp tungumálaforða landsins og í lok móðurmálsvikunnar verður efnt til málþings í tilefni Alþjóðadags móðurmálsins.

Mikil menningarleg verðmæti felast í ræktun móðurmálsins sem styrkir stöðu einstaklinga, auðgar samfélag fólks og tengir saman ólíka menningarheima, bæði innan samfélags og á milli þeirra. Menning á Íslandi býr nú þegar yfir mikilli fjölbreytni og á hverjum degi eru í skólanum börn sem eiga sér fjölmörg ólík móðurmál. Í þessum ríkulega tungumálaforða okkar felast verðmæti sem okkur ber bæði að hlúa að og virða. Dagur móðurmálsins á að minna á það og vera okkur hvatning til að styrkja stöðu móðurmála.

 

Scroll To Top