Helga Ágústsdóttir hlaut viðurkenningu úr Minningarsjóði Ásgeirs S. Björnssonar fyrir lokaverkefni til B.Ed.- prófs við Menntavísindasvið, skólaárið 2010-2011.
Verkefni Helgu Ágústsdóttur skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða myndskreytta sögu fyrir börn, Matgráðuga prinsessan. Hins vegar er greinargerð um verkið.
Í umsögn dómnefndar segir m.a: Sagan er ákaflega vel útfærð og vandlega unnin. Myndefnið er til fyrirmyndar, frumlegt og úthugsað, auk þess sem efni sögunnar á brýnt erindi til nútímans. Verkefni Helgu er í alla staði ákaflega vel af hendi leyst, og speglar skapandi og frumlega hugsun. Allur frágangur er til fyrirmyndar. Málfarið er gott og vel unnið úr heimildum.
Auk þess að vinna frábært lokaverkefni á Helga Ágústsdóttir mikinn þátt í uppbyggingu Tungumálatorgsins því hennar er hönnun á útliti og myndefni á torginu.
Til hamingju Helga!