Mennta- og menningarmálaráðuneyti hvetur skóla, aðrar fræðslustofnanir og hagsmunaaðila til að taka þátt í Evrópska tungumáladeginum 26. september 2012.
Haldið hefur verið upp á tungumáladaginn frá árinu 2001 í samstarfi við Evrópuráðið og Evrópusambandið og er dagurinn haldinn hátíðlegur meðal fjölmargra Evrópuþjóða.
Að venju mun Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur standa fyrir viðburðum í tilefni dagsins og er ætlunin að beina sjónum að því hvernig nýta megi samfélagsmiðla og upplýsingatækni í þágu tungumálanáms. Vonir standa til að unnt verði að hleypa af stokkunum átaki til að upplýsa ungt fólk um gildi tungumálkunnáttu sem geti orðið því hvatning til tungumálanáms. Einnig verður efnt til dagskrár í samvinnu við ráðuneytið, Máltæknisetur og samtök tungumálakennara um upplýsingatækni og tungumálanám, m.a. rafræn hjálpargögn. Dagskrá dagsins verður auglýst síðar, sjá nánar á heimasíðu Stofnunar Vigdísar Finnbogadóttur.