Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor og deildarforseti við HÍ, skrifar:
Á seinni hluta tuttugustu aldar varð enska samskiptamál verslunar og viðskipta, og helsta tjáningarform vísinda og fræða. Enska varð enn fremur vinsælust allra tungumála til almennra tjáskipta á veraldarvísu. Um leið og því ber að fagna að fjölmargir Íslendingar hafa náð frábærum tökum á enskri tungu eru enn margir sem telja sig góða í ensku en hafa í raun frekar takmarkað vald á tungumálinu.
Og þó enskan sé til margra hluta nytsamleg og í oddastöðu meðal tungumála heims er hún alls ekki allt – svo langt frá því. Fræðaheimar og viðskiptalíf heilu heimsálfanna fara fram á öðrum tungumálum en ensku. Því er mikilvægt að tryggja aðgengi Íslendinga að námi í sem flestum tungumálum. Öflug sveit fólks sem skilur, talar, ritar og getur þýtt úr sem flestum tungumálum og útskýrt blæbrigði menningartengdra upplýsinga er ómetanlegur fjársjóður þjóðar sem beitir fyrir sig tungumáli sem innan við hálf milljón manna talar – hérlendis og erlendis. Fyrir fámenna þjóð og lítið málsamfélag eru hæfni og færni í erlendum tungumálum lykill að frekari framþróun og framförum. Ef ekki blasir einangrun og stöðnun við.
Án þekkingar á tungumálum, færni í menningarlæsi og hæfni í þýðingum staðnar þjóðlífið, um leið og atvinnu-, fræða-, og listaheimarnir einangrast og verða einsleitir. Þeim fjölmörgu nemendum sem nú hefja nám á öllum skólastigum er bent á að vera vakandi fyrir tilboðum um áframhaldandi tungumálanám, hjá málaskólum, í öldungadeildum, við endur- og símenntunarstofnanir, Tungumálamiðstöð Háskóla Íslands og síðast en ekki síst við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, – einu deild sinnar tegundar á landinu. Nám í tungumálum og menningarlæsi er ekki einungis ögrandi og skemmtilegt, það er fjárfesting til framtíðar!