Ársskýrslur Okkar máls gefa skýra mynd af starfsemi hvers árs. En hér er hægt að lesa ágrip af starfi verkefnisins.
Okkar mál er þróunar- og rannsóknarverkefni sem miðar að því að auka tengsl á milli leik- og grunnskóla og skapa samfellu í námi ungra barna. Fellahverfi hefur einna hæsta hlutfall innflytjenda í Reykjavík (fyrir utan Kjalarnes) og eru starfræktir í hverfinu Fellaskóli og tveir leikskólar, Holt og Ösp.
Í skólunum þremur er fjöldi barna með annað móðurmál en íslenska um og yfir 70% og eru því í þeirri sérstöðu að vera mjög fjölmenningarlegir. Felast mörg tækifæri í slíkum fjölbreytileika og mikil sértæk þekking og því var ákveðið að setja á laggirnar samstarfsverkefni sem myndi deila þeirri þekkingu á milli skólanna. Verkefnið hefur það að leiðarljósi að efla félagslegan jöfnuð, námsárangur og vellíðan barna í hverfinu.
Verkefnið er byggt a starfi og reynslu fjölmargra aðila í Breiðholti, en hópur skólafólks og sérfræðinga hittust nokkrum sinnum veturinn 2011 og ræddu um möguleika til skólaþróunar. Í kjölfarið var ákveðið að sækja um þróunarstyrk til fimm ára hjá skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur sem veittur var í byrjun árs 2012. Samstarfsaðiðlar verkefnisins eru Fellaskóli, leikskólarnir Holt og Ösp, Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur, Þjónustumiðstöð Breiðholts og Menntavísindasvið Háskóla Íslands og mótuðu þau verkefnið í ágúst 2012. Verkefnastjóri Okkar máls var í upphafi Þorbjörg St. Þorsteinsdóttir, tók Ester Helga Líneyjardóttir við árið 2014 en að lokum tók Helga Ágústsdóttir við sem verkefnisstjóri í janúar 2015. Stýrihópsfundir eru haldnir reglulega og sitja þar verkefnastjórar og tengiliðir frá öllum stofnunum samstarfsaðila.
Byggist verkefnið upp á nokkrum stefnumótun opinberra aðila, þar á meðal samþykki Borgarráðs frá árinu 2011 um aukið samstarf í skóla og frístundastarfi í Efra-Breiðholti, tillögur starfshóps á vegum Reykjavíkurborgar frá 2011 um aukið samstarf leikskóla og grunnskóla um eflingu mál og læsis með sérstakri áherslu á börn með annað móðurmál en íslensku, lög og aðalnámskrár leik- og grunnskóla, íslenska málstefnu frá árinu 2009 og stefnumótun í málefnum innflytjenda.
Megináhersla Okkar máls felst í að efla málþroska og læsi sem er grundvöllur möguleika barna til að ná góðum árangri í námi og í lífinu. Áhersla er lögð á að auka fagþekkingu, færni og samvinnu starfsfólks í skóla og frístundastarfi til að mæta fjölbreyttum þörfum nemenda. Meginmarkmið verkefnisins eru eftirfarandi:
- Að stuðla að miðlun upplýsinga á milli skólastiga og markvissu samstarfi þar sem heildræn sýn á barnið, menntun þess og velferð er höfð að leiðarljósi.
- Að byggja upp þekkingu á starfsháttum og inntaki skólastarfs og skapa samfellu í námi og kennslu barna á báðum skólastigum.
- Að tryggja vellíðan og öryggi barna við skólaskil og auðvelda þeim og fjölskyldum þeirra þá breytingu sem fylgir því að fara úr leikskóla yfir í grunnskóla.
Auk ofantalinna markmiða er stefnt að því að vinna að stöðugri endurskoðun samstarfsins með það að markmiði:
- Að auka þekkingu kennara og starfsfólks á þáttum sem hafa áhrif á máltöku og læsi allra barna með sérstakri áherslu á börn með annað móðurmál en íslensku
- Að tengja nærumhverfið, menningu og daglegt líf við málþroska og læsi barna
- Að efla fagleg vinnubrögð og færni kennara í starfi með margbreytilegum barna- og foreldrahóp
Verkefnið hefur leitt af sér aukna þekkingu og reynslu og var ákveðið að leggja í vefsíðugerð sem myndi geta nýst öðrum sem leiðarvísir. Upp úr verkefninu hefur sprottið nokkrir viðburðir sem haldist hefur í gegnum árin. Skipulagðar heimsóknir er á milli leikskólanna og grunnskólans. Leikskólabörn fara í heimsóknir í smiðjur Fellaskóla er tengjast myndlist, smíði og saumum, heimsækja frístundarheimilið og fá afnot af íþróttahúsi skólans. Fyrsta árs nemar grunnskólans heimsækja gamla leikskóla sinn og koma nemendur úr 5.bekk til að lesa fyrir börnin á ýmsum tungumálum.
Vorskólinn er haldinn í lok maí hvers árs fyrir útskriftarnemendur leikskólanna. Stendur hann yfir í þrjá daga í Fellaskóla þar sem börnin fá að kynnast starfsemi skólans og eru undirbúin fyrir hvað bíður þeirra um haustið og kennurum gefst tækifæri til að hitta verðandi nemendur sína. Foreldrum er boðið á kynningu til að kynnast starfinu og nýjum aðstæðum, en dregur þetta úr áhyggjum bæði barna og foreldra við breytingar sem fylgja skilum á milli skólastiga
Útskrift elstu barna leikskólanna er haldin við hátíðlega athöfn í Fellaskóla, en með þessu gefst tækifæri til að tengja skólana og miðla upplýsingum. Tekur Fellaskóli þátt í útskriftinni og býður útskriftarbörnum velkomna í skólann og er lögð áhersla á að foreldrar upplifi sig velkomna af starfsfólki skólans og að viðmótið sé vingjarnlegt.
Fyrir utan þessa viðburði eru haldnir sameiginlegir starfsdagar Fellaskóla og leikskólanna Aspar og Holts. Markmið starfsdaganna er að auka þekkingu á fjölmenningarlegu skólastarfi og efla samstarf á milli starfsfólks skólanna.
Verkefnið hlaut Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs í maí 2013.