Leiklistarleikskólinn

Markmið Leiklistarleikskólans er að innleiða kennsluaðferðir leiklistar í leikskólastarfi á Ösp og Holti með það fyrir augum að auka tjáningu barnanna í gegnum leik og sköpun.

Áætlaður afrakstur verkefnisins er aukin þekking á kennsluaðferðum leiklistar í leikskólastarfi á Holt og Ösp. Aukin áhersla á þátt tjáningar í leikskólastarfi. Virkjun leikgleði hjá starfsfólki skólanna sem skilar sér í aukinni vellíðan hjá starfsfólki og börnum.

Kennsluaðferðir leiklistar hafa verið mikið rannsakaðar á grunnskólastigi. Á leikskólastiginu er hins vegar gert ráð fyrir að allt nám fari fram í gegnum leik, hvort sem hann er frjáls eða skipulagður. Leiklist stendur ansi nálægt hjarta leikskólans en kjarni hennar er tjáning, gleði, leikur og sköpun. Allt hugtök sem eru leikskólakennurum töm.

Leikskólarnir Ösp og Holt njóta sérstöðu sökum þess að fjöldi barna af erlendum uppruna sem tala annað tungumál en íslensku á heimili er um 80%. Tíminn á leikskólanum er því afar mikilvægur og mikilvægt að hann sé nýttur til hins ítrasta til þess að börnin nái nægilega góðum undirstöðum í tungumálinu til þess að þeim vegni vel og geti tjáð sig um allt sem máli skiptir. Hugsanir, langanir og líðan.

Á sama tíma er hlutfall faglærðs starfsfólks með því lægsta sem gerist á landsvísu. Til þess að tryggja aukin gæði leikskólastarfs hafa leikskólarnir sótt sérfræðiþekkingu utan skólanna og nýtt sér tíma sérfræðinganna inni á gólfi í starfi með börnunum. Starfsfólkið hefur tekið virkan þátt og notið handleiðslu sérfræðingana og eftirfylgd. Þannig hefur mikil þekking myndast innan leikskólanna.

Sprotasjóður styrkir Leiklistarleikskólann um 1.500.000,- og vonir standa til þess að leiklist verði órjúfanlegur hluti leikskólastarfs í Holti og Ösp. 

 

Verkþáttur Afurð
Undirbúningstími Fræðsla, þjálfun og undirbúningur starfsfólks á starfsdegi.
Keyrsla verkefnis og handleiðsla starfsfólks Leiklistarverkefni í starfi með börnum þar sem börnin njóta kennslu sérfræðinga á sviði leiklistar og starfsfólk nýtur handleiðslu í leiklistarstarfi með börnunum.
Úrvinnsla þekkingar á kennsluaðferðum leiklistar Myndadagbók og ígrundun starfsfólks.

 

Kynning á vefsíðu Okkar máls Umfjöllun um verkefnið og dreifing þekkingar