Leiklistarleikskólinn

Markmið Leiklistarleikskólans er að innleiða kennsluaðferðir leiklistar í leikskólastarfi á Ösp og Holti með það fyrir augum að auka tjáningu barnanna í gegnum leik og sköpun.

Áætlaður afrakstur verkefnisins er aukin þekking á kennsluaðferðum leiklistar í leikskólastarfi á Holt og Ösp. Aukin áhersla á þátt tjáningar í leikskólastarfi. Virkjun leikgleði hjá starfsfólki skólanna sem skilar sér í aukinni vellíðan hjá starfsfólki og börnum.

Kennsluaðferðir leiklistar hafa verið mikið rannsakaðar á grunnskólastigi. Á leikskólastiginu er hins vegar gert ráð fyrir að allt nám fari fram í gegnum leik, hvort sem hann er frjáls eða skipulagður. Leiklist stendur ansi nálægt hjarta leikskólans en kjarni hennar er tjáning, gleði, leikur og sköpun. Allt hugtök sem eru leikskólakennurum töm.

Leikskólarnir Ösp og Holt njóta sérstöðu sökum þess að fjöldi barna af erlendum uppruna sem tala annað tungumál en íslensku á heimili er um 80%. Tíminn á leikskólanum er því afar mikilvægur og mikilvægt að hann sé nýttur til hins ítrasta til þess að börnin nái nægilega góðum undirstöðum í tungumálinu til þess að þeim vegni vel og geti tjáð sig um allt sem máli skiptir. Hugsanir, langanir og líðan.

Á sama tíma er hlutfall faglærðs starfsfólks með því lægsta sem gerist á landsvísu. Til þess að tryggja aukin gæði leikskólastarfs hafa leikskólarnir sótt sérfræðiþekkingu utan skólanna og nýtt sér tíma sérfræðinganna inni á gólfi í starfi með börnunum. Starfsfólkið hefur tekið virkan þátt og notið handleiðslu sérfræðingana og eftirfylgd. Þannig hefur mikil þekking myndast innan leikskólanna.

Sprotasjóður styrkir Leiklistarleikskólann um 1.500.000,- og vonir standa til þess að leiklist verði órjúfanlegur hluti leikskólastarfs í Holti og Ösp. 

Verkþáttur Afurð
Undirbúningstími Fræðsla, þjálfun og undirbúningur starfsfólks á starfsdegi.
Keyrsla verkefnis og handleiðsla starfsfólks Leiklistarverkefni í starfi með börnum þar sem börnin njóta kennslu sérfræðinga á sviði leiklistar og starfsfólk nýtur handleiðslu í leiklistarstarfi með börnunum.
Úrvinnsla þekkingar á kennsluaðferðum leiklistar Myndadagbók og ígrundun starfsfólks.

 

Kynning á vefsíðu Okkar máls Umfjöllun um verkefnið og dreifing þekkingar

Utanaðkomandi sérfræðingar verkefnis frá Háskóla Íslands: Ása Helga Ragnarsdóttir, Hafdís Guðjónsdóttir Ph.D. og Steinunn Ólafsdóttir leikkona og meistaranemi við menntavísindasvið.

Lýsing á framkvæmd verkefnis:

Fyrsti vinnufundur vegna verkefnsins var í skólabyrjun, haustið 2018. Ása Helga Ragnarsdóttir, Hafdís Guðjónsdóttir Ph.D, Steinunn Ólafsdóttir, Halldóra Björg Gunnlaugsdóttir leikskólastjóri Holts, Sólveig Jónsdóttir, Sigrún Lára. Ákveðið var að nýta sérfræðingskápuna sem kennsluaðferð í verkefninu og dýpka þekkingu leikskólakennara á aðferðinni. En í sérfræðingskápunni fara börnin í hlutverk rannsakenda sem kafa ofan í viðfangsefnið gegnum leik. Þannig nálgast þau viðfangsefnið gegnum gleraugu hlutverksins. Aðferðin er afar hentug til þess að efla samhygð og félagsfærni þar sem börnin læra gegnum upplifun.

Yfirmarkmið verkefnis er að gera kennara/starfsmenn sjálfbæra í kennsluaðferðinni og geta haldið áfram að nýta kennsluaðferðir leiklistar í leikskólastarfi þegar utanaðkomandi handleiðslu nýtur ekki lengur.

Tilnefndir voru sérstakir tengiliðir leiklistar á hvorum leikskóla fyrir sig. Abba og Sigrún Lára á Holti og Magnea og Þurý á Ösp. Tengiliðir fengu það hlutverk að leiða vinnu með leiklist á leikskólanum og vera innanhúss sérfræðingar hvors leikskóla fyrir sig.

Undirbúningsfundur leiðtoga og leiklistarsérfræðinga að kvöldi þann 2. okt.

Sameiginlegur starfsdagur leikskólanna 5. október 2018 var helgaður leiklistarstarfinu. Ása Helga Ragnarsdóttir og Steinunn Ólafsdóttir stýrðu fræðslu og þjálfun í leiklist, leikferlum og sérfræðingskápunni. Kennsluaðferðir leiklistar bjóða upp á að vera aðlagaðar að hverjum barnahóp fyrir sig og þar reynir á þekkingu leikskólakennara að þekkja þroska og reynsluheim barnahópsins.

Vinna starfsdagsins 5. október 2018
Þátttakendur  37 leikskólastarfsmenn, tveir leikskólastjórar, Helga frá “Okkar mál” og Steinunn Ólafsdóttir og Ása Helga Proppé Ragnarsdóttir frá Þróunarverkefninu; leikskólaspæjarar
1.      Kynning á okkur og dagskránni þennan morgun
2.      Ísbrjótar til að brjóta ísinnn og hrista alla saman, leikir.
3.      Leikurinn: Við segjum HÆ OG GÓÐAN DAG (hringleikur með ytri og innri hring, hreyfingum og song
4.      Leikurinn: fill asni og pálmi. Hreyfingar og snerpa
5.      Leikurinn blindi bóndinn. Markmið að læra hver eru húsdýrin.
6.      Leikurinn Bjarndýraveiðar. Þátttakendur fara á bjarndýraveiðar með tilheyrandi ævintýrum
7.      Farið í gegnum spæjaraleikinn sem framundan er, reglur leiksins, mikilvægi rammans og spennunnar.
8.      Sýnikennsla á fyrsta tíma, Siggi súri mætir á svæðið og Lási lögga ásamt félögum. Leikskólakennarar breyttust í fimm ára börn. Gaman, gaman.
9.      Kaffihlé
10.  Leikferli með sögunni um Rauðhettu tekið fyrir. Leikskólakennarar léku, spunnu og breyttu sögunni í leikrænt ferli.

Starfið með börnunum inn á deildunum undir stjórn Ásu Helgu Ragnarsdóttur og Steinunnar Ólafsdóttur hófst í október. Á fimmtudögum í Holti og á mánudögum í Ösp. Unnið var í um klukkustund í hvert skipti, allt eftir úthaldi barnanna.

Keyrð voru fimm skipti á hvorum leikskóla undir stjórn Ásu og Steinunnar og síðan tóku tengiliðir við boltanum. Tengiliðir unnu eigin kennsluáætlanir og keyrðu með börnunum á deildinni. Ása og Steinunn handleiddu tengiliði í þeirri vinnu, fylgdust með og gáfu endurgjöf á alla vinnu.

Dæmi um óvænta og frumlega afurð af leiklistarverkefninu er að á Holti samtvinnuðu tengiliðir vinnu með K-PALS, sem áður hafði verið í gangi á deildinni og leiklistarverkefnið. Sú afurð verður að teljast nýjung í leikskólastarfi og sýnir að mati skýrsluhöfundar hversu dýrmæt aðferðarfræði leiklistar getur verið til þess að aðlaga utanaðkomandi sérfræðiþekkingu úr öðrum greinum en leikskólafræðum að þörfum leikskólans og þroska leikskólabarnanna, sem læra gegnum leik, sköpun og tjáningu.