Mikilvægi tungumálanáms og -kennslu

Hólmfríður Garðarsdóttir, prófessor skrifar í Fréttablaðið í dag, 20. september 2012:

Þegar samfélagsþróun á Íslandi á síðustu árum er skoðuð blasir við að þekking á sem flestum tungumálum verður æ mikilvægari í ljósi þess að samsetning íbúanna breytist, þátttaka Íslands og Íslendinga á alþjóðavettvangi eykst og hingað flykkjast hundruð þúsunda ferðamanna ár hvert. Við höfum einsett okkur að veita þessum gestum fyrirmyndarþjónustu og -aðgengi að landinu, menningu þess og þjóðlífi. En þessir gestir tala ekki íslensku og margir þeirra tala ekki annað en eigið móðurmál. Dæmin eru fjölmörg og það kemur mörgu því kornunga fólki sem vinnur við ferðaþjónustu á Íslandi í opna skjöldu að uppgötva að fólk frá nágrannalöndum okkar eins og Þýskalandi, Frakklandi, Ítalíu og Spáni skuli ekki tala annað en sitt eigið móðurmál. En sú er raunin og það er á okkar ábyrgð að undirbúa starfsfólk ferðaþjónustunnar fyrir móttöku þeirra með því að kenna íslenskum ungmennum sem flest tungumál – og það vel. Við munum njóta meiri virðingar og velvilja fyrir vikið.

Grunnur að tungumálafærni Íslendinga er lagður í grunn- og framhaldsskólum og þar má ekki slá slöku við því að við Deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda á Hugvísindasviði Háskóla Íslands eru kennd 13 og stundum 14 erlend tungumál. Þar er að finna langar og stuttar námsleiðir, einvalalið sérmenntaðra kennara sem allir hafa dvalið langdvölum við erlenda háskóla og þekkja menningu, þjóðlíf og sögu fjölmargra landa, þjóða, málsvæða og heimsálfa. Við þurfum ekki að leita langt yfir skammt því að við höfum allt sem til þarf við höndina.

Þessi færsla var birt undir Uncategorized. Bókamerkja beinan tengil.