Á kynningunni er mikilvægt að fjalla um hugtakið menningu í víðum skilningi og í gagnvirku samtali við nemendur, svo allir upplifi sig sem virka þátttakendur í verkefninu. Á þessu aldursstigi er gott að varpa fram spurningum sem varða gildi; persónuleg og sameiginleg. Einnig að leiða umræðuna inn á notkun samfélagsmiðla og hvernig hver og einn velur að kynna sig á þeim vettvangi. Það mætti varpa fram þeirri spurningu hvort rafræna birtingarmyndin og sú mynd sem einstaklingurinn hefur hugsað sér að birta af sér á Menningarmótinu – í fýsíska rýminu – yrði sú sama.
Það er hentugt að nýta sér margmiðlun á kynningunni, miðla tónlist og öðru efni á Youtube, sýna myndbönd frá Menningarmótum á sama aldursstigi og einnig muni, ljósmyndir, bækur og annað sem dæmi um eitthvað sem er í uppáhaldi hjá þeim kennara sem stendur fyrir kynningunni.
Kynningin á að veita nemendum innblástur og hugmyndir að miðlunarleiðum.
Dæmi um vel heppnaða kynningu var þegar hópur stráka í einum framhaldsskóla vildi meina að þeir tengdust ekki neinni sérstakri menningu. En í samtalinu við verkefnastjórann kom í ljós að þeir stunduðu allir „parkour“ oft í viku, og að með þeirri íþrótt fylgir bæði saga og menning, sem þeir vissu allt um. Á Menningarmótinu setti hópurinn upp flotta „parkour“-sýningu. Þeir voru þar að auki með fróðlegt erindi um þessa hreyfilist, þar sem iðkendur nota hindranir borgarinnar, byggingar, veggi eða annað, á frumlegan og hugmyndaríkan hátt til þess að komast leiðar sinnar.
Innblástur fyrir kynninguna:
– Sýnishorn af því sem getur skipt máli í lífi og menningu hvers einstaklings (frásagnir, munir, bækur, tónlist, síður á netinu, ljósmyndir o.fl).
-Umræða um það sem getur verið mikilvægt fyrir hvern og einn.
-Spjall um að flytja á milli staða eða landa; Hvers saknar maður? Hvað þarf maður að fást við? Hvað þarf að læra? Kostir og gallar.
– Telja fjölda tungumála sem eru töluð í bekknum ef á við.
-Hópastarf: Nemendur skrifa niður spurningar um það sem þeim finnst áhugavert að vita um hvert annað og aðra menningarheima. Hægt er síðan að nota þær sem innblástur þegar nemendur fara að undirbúa sína eigin kynningu.
-Fara yfir spurningarnar saman og nota þær sem umræðuefni.
-Góð reynsla er af því að láta þátttakendur skrifa niður hugmyndir sínar eftir kynninguna og hefja þannig strax undirbúning.