“Lifandi tungumál” í kennslunni

„Lifandi tungumál“ í kennslu er hugmynd sem miðar að því að  vekja áhuga barna og ungmenna á tungumálum með því að virkja þann fjársjóð sem felst í tungumálaforða tví – og fjöltyngdra barna. Hér er bæði um að ræða börn sem eru með annað móðurmál en íslensku og íslensk börn sem hafa búið erlendis og koma tilbaka með ný tungumál í farangrinum og innsýn í ýmsa menningarheima.

photo (4)

Með því að beina athyglin á tungumálaforða nemenda og nýta reynsluheim og heimsreynslu þeirra í kennslu er hugsunin að reyna að kveikja forvitni og löngun til að læra tungumál. Innsýn í mismunandi menningarheima eykur möguleika barna til að þjálfa næmi sitt og skilning fyrir fjölbreyttum tungumálum og til að tileinka sér fjölmenningarfærni. Á sama tíma er verið að stuðla að jákvæðri sjálfsmynd þeirra sem kunna fleiri en eitt tungumál og sem eru sumir enn byrjendur í íslensku. Það getur gefið manni blik í augun og haft jákvæða og valdeflandi áhrif á sjálfsmyndina, og þarmeð námsferlið, að kunna eitthvað alveg sérstakt – eins og til dæmis tungumál. Aðferðirnar geta verið fjölbreyttar og það er meðal annars hægt að nota „Café Lingua“-módelið eða Menningarmót sem verkfæri. Í almennri áherslu á mikilvægi fjölbreyttri tungumálakunnáttu er hægt að setja upp Cafe Lingua eða „tungumálatorg“ með börnum, unglingum og fullorðnum í leikskólum, í grunn – og framhaldsskólum, í háskólum og á vinnustöðum o.sfr.  Á “tungumálatorgi” fer fram miðlun tungumála og menningar á margvíslegan hátt (tungumálastefnumót, ljóðalestur, tónlist, frásögn og fleira). Menningarmótin henta einnig mjög vel sem hagnýt kennsluleið í íslensku sem annars máls,  erlendum tungumálum og í vinnu með fjölbreytt móðurmál.

 

Dæmi um “Lifandi tungmál” á Menningarmóti í tungumálakennslu

Menningarmótið fór fram í spænskukennslu í Austurbæjarskóla og voru nemendur skólans með spænsku sem móðurmál ásamt spænskuhópi nemenda hjá samtökunum Móðurmál  boðnir sem  gestir til þeirra sem voru að læra spænsku sem erlent mál. Þátttakendur voru með sitt svæði þar sem sagt var frá sjálfum sér eða sínum áhugamálum og því sem tengist spænsku og spænskumælandi menningu – á spænsku. Með þessu fyrirkomulagi skapaðist góður grundvöllur fyrir hagnýt og skemmtileg samskipti. Ein leið til að þróa lifandi tungumál er að  tilnefna áhugasama nemendur í skólunum sem  „tungumálamiðlara“ eða „lifandi tungumál“ og nýta tungumálaforða þeirra til  að fagna fjöltyngi og örva forvitni fyrir tungumálum hjá öðrum. Það er æskilegt að virkja sem flesta sem tengjast skólunum og fjölmenningarsamfélaginu, þar á meðal starfsfólk, samtök og fjölskyldur, til að taka þátt í að lyfta tungumálum nemenda  á stall og auka þar með virðingu samfélagsins fyrir þeim sem þau tala. Íslenskan er að sjálfsögðu hluti af tungumálafjársjóðnum og yrði hlutur af tungumálamótum eins og lýst hér að ofan.