Kynning fyrir börnin

arte2

 

Á kynningunni er mikilvægt að búa til stemningu sem undirstrikar að hver og einn skipti máli og að öll  eigum við  “persónulegan fjársjóð”. Það er þessi fjársjóður, það sem okkur þykir vænt um og það sem við erum góð í, sem við sýnum öðrum á Menningarmótinu. Allra best  er að koma upp einhverskonar  “fjársjóðskistu”, tösku eða boxi, þar sem sá sem kynnir dregur upp muni, ljósmyndir, uppáhaldsbækur, tónlist, bíómynd o.fl. sem dæmi um eitthvað sem skiptir máli í lifi hans eða hennar. Það er um að gera að draga þessa muni upp úr kistunni smátt og smátt á dularfullan eða töfralegan hátt og til að ítreka mikilvægi hlutanna eða sagnanna sem viðkomandi hefur að segja. Sá sem kynnir segir  nokkur orð eða góðar sögur um það af hverju þessir munir urðu  fyrir valinu og af hverju þeir skipta máli fyrir viðkomandi.

Kynningin á að veita innblástur og koma af stað hugmyndum  meðal barnanna um það  hvers konar kynning geti orðið  fyrir valinu hjá þeim. Hægt er að leggja áherslu á að sýnishorn verði af hinum ýmsu menningarheimum eins og til dæmis bækur á ýmsum tungumálum. Á meðan kynningin stendur yfir koma margar skemmtilegar athugasemdir frá börnunum sem er nauðsynlegt að flétta inn í samhengið þannig að þau upplifi ferlið sem þeirra eigið alveg frá byrjun. Börnin verða þannig þátttakendur bæði sem einstaklingar en líka sem hópur.

 

Innblástur fyrir kynninguna:

– Sýnishorn af því sem getur skipt máli í lífi og menningu hvers einstaklings (frásagnir, munir, bækur, tónlist, síður á netinu, ljósmyndir o.fl).

– Umræða um það sem getur verið mikilvægt fyrir hvern og einn.

– Spjall um að flytja á milli staða eða landa; Hvers saknar maður? Hvað þarf maður að fást við? Hvað þarf að læra?      Kostir og gallar.

– Telja fjölda tungumála sem eru töluð í bekknum ef á við.

– Hópastarf: Nemendur skrifa niður spurningar um það sem þeim finnst áhugavert að vita um hvert annað og aðra menningarheima. Hægt er síðan að nota þær sem innblástur þegar nemendur fara að undirbúa sína eigin kynningu.

– Fara yfir spurningarnar saman og nota þær sem umræðuefni.

– Góð reynsla er af því að láta þátttakendur skrifa niður hugmyndir sínar eftir kynninguna og hefja þannig strax undirbúning.