Menningarmótið

Menningarmót í 5. bekk

Skólastjóri fylgdist með verkefninu. Þetta gekk einstaklega vel og var öllum til mikillar ánægju. Það kom á óvart hvað þetta einfalda verkefni gaf mikið af sér í mannlegum, innihaldsríkum samskiptum, innan bekkjarins og í kynningu erlendu starfsmannanna og nemendanna í 5. bekknum. Við endurtókum verkefnið og fengum erlenda starfsfólkið okkar til að vera með menningarmót á síðasta starfsmannafundinum og um leið fengum við nokkra starfsmenn aðra til að kynna með sama hætti. Það kom á óvart hvað starfsfólkið í skólanum hafði mikla ánægju af þessu og hvað kennarar skildu vel möguleika þessa einfalda og skemmtilega verkefnis. Margir töluðu um hvernig þeir gætu nýtt sér hugmyndina næsta vetur. Ég mæli eindregið með að aðrir kynni sér þessa skemmtilegu nálgun og nýti hana í starfi sínu.”

Ásgeir Beinteinsson, skólastjóri Háteigsskóla

Menningarmót í 4. bekk

Menningarmótið tókst framar vonum og voru foreldrar ALLRA barnanna í bekknum mjög ánægðir með framtakið. Einnig hefur þessi vinna skilað sér í betri bekkjaranda. Æskilegt væri að kynna menningarmótið vel fyrir öllum foreldrum í almennri námsefniskynningu sem haldin er í upphafi hvers skólaárs og fara í þessa vinnu fljótlega í framhaldi af því.

María Vilborg Ragnarsdóttir, kennari í 4. bekk í Austurbæjarskóla

Fleiri umsagnir og lýsingar starfsfólks.

Sameiginlegt Menningarmót 5. bekkinga og framhaldsskólanema

“Nemendur úr grunnskólanum voru blandaður hópur, bæði Íslendingar og börn af erlendum uppruna. Þau áttu það sameiginlegt að leggja meiri áherslu á áhugamál sín heldur en þjóðmenningu. Þátttakendur höfðu allir gaman af verkefninu og var auðséð að þau höfðu lagt mikla vinnu í það sem þau höfðu undirbúið. Íslenskukunnátta þeirra virtist í fljótu bragði mun betri þegar þau töluðu um þau sjálf en þegar þau voru á kynningunni viku á undan. Eins virtust samskipti þeirra vera góð og þau voru áhugasöm og skoðuðu hvert hjá öðru og spurðu spurninga.” 
Hildur Hrönn Oddsdóttir, “Þar sem margbreytileikinn lifir”, stofnanafrumkvöðlakraftar í fjölmenningu. MS ritgerð, Stjórnun og stefnumótun.