Útskrift leikskólabarna af Holti og Ösp

Dagana 18. og 19. maí fóru útskriftir leikskólabarna af Holti og Ösp fram í hátíðarsal Fellaskóla. Börnin sýndu skemmtiatriði sem þau höfðu undirbúið fyrir foreldra sína og stóðu sig með stakri prýði. Söngur, útskriftarmyndband og frumsamið leikverk litu dagsins ljós við mikinn fögnuð viðstaddra. Spennan og gleðin leyndi sér ekki í andlitum barna og foreldra þegar tilvonandi skólabörnin tóku við útskriftarskírteinum úr hendi leikskólastjóranna.

Að lokinni útskrift héldu báðir hópar kaffiboð þar sem hver og einn kom með góðgæti á hlaðborðið. Það var stoltur hópur barna, foreldra og kennara sem fagnaði þessum stóra áfanga í lífi leikskólabarnanna.