Tilvonandi nemendur 1. bekkjar Fellaskóla fengu tækifæri til að kynnast skólastarfinu í vorskólanum, sem haldinn var dagana 25.-27. maí 2016.
Dagskrá vorskólans var skipulögð með það fyrir augum að nemendur kynntust skólanum, kennurum og starfsfólki auk samnemendum og upplifðu sig velkomna í Fellaskóla. Hátíðardagskrá 1.-4. bekkjar sýndi hversu öflugt skólastarf er unnið í Fellaskóla og stóðu allir þeir sem fram komu sig með miklum ágætum.
Sögustundir í umsjá 5. bekkinga tókust vel og vart mátti á milli sjá hvort eldri eða yngri nemendur voru áhugasamari. Á næsta skólaári verður 6. bekkur vinabekkur 1. bekkjar og þarna var lagður mikilvægur grunnur að góðu samstarfi næsta vetrar.
Íþróttatíminn vakti mikla lukku. Hópurinn var bæði áhugasamur og ótrúlega flinkur að fylgja fyrirmælum.
Tilvonandi fyrstu bekkingar stóðu sig af mikilli prýði og voru ekki alveg á því að fara aftur í leikskólann, enda svo ótal margt spennandi í Fellaskóla.
Síðasta dag vorskólans fengu foreldrar kynningu á Fellaskóla og sýnt var myndband af dæmigerðum skóladegi og þeim gafst tækifæri til þess að hitta starfsfólk skólans og spyrja spurninga um allt sem brann á þeim. Að lokum fengu foreldrar í hendur matsblöð og þeir beðnir að láta rödd sína heyrast, enda er vorskólinn í stöðugri þróun.