TOM verkefni í Fellahverfi

Haustið 2019 stendur TOM þjónustan til boða fyrir öll 3ja ára börn (árgangur 2016) í leikskólunum Holti og Ösp. Foreldrar sækja um þátttöku gegnum leikskólana.

Vorið 2019 fór af stað tilraunaverkefni hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts. Verkefnið heitir TOM (tilsjón-okkar mál) og gengur út á að styðja foreldra við að efla gæði málumhverfis á heimili. Sérfræðingur í þroska og hegðun barna veitir ráðgjöf og stuðning um málþroska og uppeldi.Markmið verkefnisins er að efla foreldra sem helstu málfyrirmyndir barnanna, styrkja verndandi þætti í lífi barna og auka möguleika barna á að ná tökum á samskiptum gegnum tungumála.

Velferðarsjóður barna styrkir verkefnið ásamt Þróunarsjóði innflytjenda. Erlendir sjóðir hafa einnig sýnt verkefninu velvilja og er verkefnið alfarið keyrt á styrkfé og vinnuframlagi starfsmanna leikskólanna Holts og Aspar sem og þjónustumiðstöðvar.

Þjónustan felst í því að sérmenntaðir málþroskaráðgjafar koma í heimsókn til fjölskyldnanna sem þiggja þjónustuna í 6 skipti. Í heimsóknunum er farið yfir mikilvægi þess að lesa fyrir börn, leika við þau og nýta hvert tækifæri til samtals. Tungumálastefna heimila er kortlögð og foreldrum gefin ráð í þágu tungumálastefnu heimilisins, en stór hluti barnanna í hverfinu alast upp við fleiri en eitt tungumál og mikilvægt er að foreldrar fái stuðning við máluppeldi barna sinna. Heimsóknirnar byggja á sýnikennslu, æfingum og handleiðslu.