Tungumál á torgi

CafeLinguaÁ Íslandi eru töluð yfir hundrað tungumál af fólki sem hefur annað mál en íslensku að móðurmáli. Þetta kom m.a. í ljós þegar Alþjóðadegi móðurmálsins var fagnað í febrúar, en í tilefni hans var settur upp vefur hér á Tungumálatorginu þar sem skólar geta skráð tungumálaforða nemenda.

Fimmtudaginn 13. mars, kl. 14, gefst tækifæri til að kynnast hluta af þessum heimsmálum í Café Lingua á Háskólatorgi Háskóla Íslands, þar sem nemendur, sem eru að læra íslensku sem annað mál, og aðrir áhugasamir, munu kynna tungumál sín á lifandi hátt. Kynningin fer fram á íslensku, en gestir geta í kjölfarið spreytt sig á tungumálum eins og rússnesku, kínversku, frönsku, ítölsku, norsku, sænsku, dönsku, ungversku, úkraínsku, þýsku og georgísku og kynnast um leið fjölbreyttri menningu.

Eitt af markmiðum Café Lingua er að virkja þau tungumál sem hafa ratað til Íslands og auðgað mannlíf og menningu í samfélaginu og á sama tíma að vekja forvitni borgarbúa um heiminn í kringum okkur. Verkefnið er á vegum Borgarbókasafns en núna á vorönn fer það fram með nýju og breyttu sniði í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur, deild erlendra tungumála, bókmennta og málvísinda, námsgreinina „Íslenska sem annað mál“ og Íslenskuþorpið við Háskóla Íslands, Bíó Paradís, Norræna húsið og Menningarmiðstöðina Gerðuberg. Café Lingua fer því ekki einungis fram á bókasafninu heldur er því brugið upp á fleiri stöðum í borginni, svo sem í Bíó Paradís, Menningarmiðstöðinni Gerðubergi og í Háskóla Íslands.

Café Lingua er:
• vettvangur fyrir þá sem vilja efla tungumálakunnáttu sína.
• staður fyrir orð, spjall og samskipti á hinum ýmsu tungumálum.
• gátt inn í mismunandi tungumála- og menningarheima.

Allir eru velkomnir og aðgangur ókeypis.

Þessi færsla var birt undir Forsíðufréttir, Menntamidja. Bókamerkja beinan tengil.