Ekki má líta á villur sem mistök nemandans. Það sem við köllum villur eru vísbendingar um þróun sem verður þegar verið er að byggja upp málkerfi.
Þegar villum fjölgar getur það verið merki um framfarir. Ofnotkun á reglum og alhæfingar eru skilaboð um að nemanda fer fram. Maður kemst lengra með reglur en stök orð.
Dæmi: Mjög ungt barn segir ég beit en þegar það eldist segir það ég bítti (eins og snýtti). Svo lærir það aftur að beygja rétt. Túlkun: Fyrst lærir barnið utanbókar nýja beygingu (ég beit). Svo yfirfærir það beyginguna á veikar sagnir (ég bítti). Síðast lærir það regluna sem undantekningu.
Vitað er að villur sem koma fram í millimáli tengjast yfirfærslu frá móðurmáli. Aðrar villur koma fram sem tengjast þroska, þegar nemandinn alhæfir, ofnotar reglur eða einfaldar fullmikið.
Villurnar skipta ekki máli í sjálfu sér heldur gefa þær upplýsingar um hvar nemandinn er staddur í námsferlinu.
Kennarar þurfa að vera meðvitaðir um hvernig leiðrétta á villu. Mikilvægt er að ekki sé leiðrétt of mikið né of lítið. Taka þarf tillit til þarfa nemendans, á hvaða máltökustigi hann er og hafa þarf í huga viðbrögð hans við leiðréttingum.
Ofleiðréttingar geta leitt til þess að nemandinn hættir að þora að taka áhættu.