Börn sem læra íslensku sem annað mál standa frammi fyrir fjölmörgum erfiðleikum tengdum námi, ekki síst vegna misskilnings fullorðinna sem láta glepjast af færni í framburði og grunnorðaforða. Það virkar eins og gríma og afvegaleiðir fullorðna gagnvart þeirri staðreynd að orðaforðinn er mjög takmarkaður.
Flest börn sem læra íslensku sem annað mál verða „subtractive bilinguals“ sem þýðir að nýja málið nær á endanum yfirhöndinni að því er varðar samskipti utan heimilis og í fræðilegum tilgangi í skólanum. Þetta þróunarferli gerist hratt þegar þau byrja í skóla og einskonar móðurmálsmissir verður. Nemendur eru staddir í tungumálalimbói akkúrat á því skeiði þegar þeir eru að taka sín fyrstu skref í lestrarnámi í 2. bekk. Nemendur eiga yfirleitt auðvelt með að ná lestrartækni og hraða og vandi þeirra kemur oft ekki í ljós fyrr en í 4. bekk.
Ef kennarar grípa ekki kröftuglega inn á fyrstu árum skólagöngunnar til að auka orðaforða nemenda eykst vandinn hratt og verður að lokum óyfirstíganlegur í lok grunnskóla.
Kennarar þurfa að vera á varðbergi gagnvart börnum sem eiga auðvelt með umskráningu (að tengja hljóð og staf) og hafa íslensku sem annað mál. Ekki má sleppa af þeim hendinni í lok 2. bekkjar þegar þau hafa náð tæknilegum tökum á lestri því þau munu eiga í vanda í 5. eða 6. bekk og eru þá sett í sérkennslu.