Starfsemi heilans og máltaka

Fram á 20. öld trúðu menn því að heilinn væri tilbúinn við fæðingu og tæki litlum
breytingum eftir það. Þekking vísindamanna á starfsemi heilans var mjög takmörkuð vegna þess að ekki var hægt að rannsaka virkni heilans á lifandi fólki. Vísindamenn urðu að láta sér nægja að kryfja heilann eftir andlátið.

Undanfarin 20-30 ár hefur orðið bylting í rannsóknum á starfsemi heilans sem rekja má til tækniframfara og nýrrar rannsóknartækni sem gerir vísindamönnum kleift að fylgjast með starfsemi heilans, t.d. þegar fólk les. Nú er vitað að við örvun og áreiti eykst vöxtur vefja, meðal annars þeirra vefja og taugamóta sem tengja heilahvelin.

Einnig hefur komið í ljós að sumir hlutar heilans virðast vera næmir fyrir áreiti á ákveðnum þroskaskeiðum. Sýnt hefur verið fram á að brúin sem tengir heilahvelin er breytileg að stærð og umfangi eftir aldri sem bendir til þess að á sérstökum skeiðum ævinnar sé mótun heilans virkari en á öðrum. Óhætt er að álykta að heilastarfsemin virðist háðari umhverfinu en áður var talið.

Í ágúst 2011/AGJ

CC-LEYFI
Heimildir

Ásta Bryndís Schram. (2007). Rannsókn á tengslum markvissrar tónlistarþjálfunar við framför í lestri og stærðfræði í 2. – 3. bekk grunnskóla. Meistaraprófsritgerð lögð fram til fullnaðar M.Ed.-gráðu í menntunarfræðum með áherslu á stjórnun. Akureyri: Háskólann á Akureyri.
Sótt af: http://skemman.is/stream/get/1946/1308/3774/1/%C3%81sta_Schram_heild.pdf
Committee on Developments in the Science of Learning with additional material from the Committee on Learning Research and Educational Practice, National Research Council. (2000). How People Learn: Brain, Mind, Experience, and School: Expanded Edition. Sótt af: The National Academies Press. Washington, D.C.  http://www.nap.edu/openbook.php?record_id=9853&page=R9
Sousa, D.B. (2000). How the brain learns. A classroom teachers Guide. Second Edition. Thousand Oaks: Corwin Press.